131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 4.

[15:25]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að afla gagna um dreifingu síldarinnar og það mun verða gert. Hins vegar er hægt að gera það á ýmsan annan hátt en með því að senda skipin út í sérstaka leiðangra. Auðvitað er obbinn af þeim upplýsingum sem við höfum um fiskstofna okkar kominn úr upplýsingum frá flotanum sjálfum.

Það væri betra að niðurstöður í samningum færu allar eftir þeim vísindagögnum sem við höfum getað lagt fram. Því miður er það ekki þannig. Í þeirri deilu sem við eigum í við Norðmenn hefur mér ekki virst sem rök dygðu sérstaklega vel. Einhver önnur sjónarmið eru þar á lofti og ég held að við þurfum að fara varlega í að treysta á að rök og skynsemi muni duga okkur eingöngu í þeim deilum sem við eigum í í dag. Það hefur ekki reynst svo hingað til.