131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 4.

[15:26]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er mjög varasamt að reiða sig bara á fiskiskipaflotann þegar um það er að ræða að finna heimildir fyrir því hvar síldin er á hverjum tíma. Fiskiskipin hafa ávallt tilhneigingu til að leita á þá staði þar sem síldin er þéttust á hverjum tíma og stunda þar veiðar. Ef þau hafa fundið einhvers staðar stóra og góða torfu eða torfur á tiltölulega litlu svæði er flotinn þar. Hann leitar ekki mikið fyrir utan það.

Það sem við þurfum á að halda er að fara yfir miklu stærra hafsvæði, hafsvæðið á milli Íslands og Jan Mayen, fyrir austan Jan Mayen, norðaustur af Íslandi, lengst norðaustur í höf. Það er það sem við þurfum að gera og til þess þarf að skipuleggja sérstaka leit og víðtækar rannsóknir. Að sjálfsögðu kosta þær peninga, að sjálfsögðu krefjast þær mannafla en það er einfaldlega sá fórnarkostnaður sem við verðum að leggja út.

Varðandi Norðmenn er það einmitt þannig að þó að erfitt sé að tjónka við þá, það er alveg rétt, hafa aðalröksemdir þeirra varðandi skiptingu síldarstofnsins gengið út á það að menn ættu að líta á göngur og útbreiðslu síldarinnar. Hérna fáum við sem sagt vonandi tækifæri til að nota helstu rök þeirra sjálfra gegn þeim sjálfum og þá hljótum við að ná árangri.