131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[15:29]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hafði komið að beiðni um að taka upp óundirbúna fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra. Tíminn sem til þess gefst að svara hér spurningum var ekki nýttur til fulls og ég vil spyrja hæstv. forseta hvers vegna ég hafi ekki fengið að bera fram þessa fyrirspurn.

(Forseti (HBl): Efni þeirrar fyrirspurnar sem hv. þingmaður bar fram fellur undir landbúnaðarráðherrann, ekki forsætisráðherra.)

Hæstv. forseti. Í þingsköpum stendur um þetta efni:

„ Í allt að hálftíma á fyrir fram ákveðnum fundi getur forseti heimilað þingmönnum að bera fram munnlegar fyrirspurnir til ráðherra. Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en þrisvar, eigi lengur en tvær mínútur í fyrsta sinn og eigi lengur en eina mínútu í annað og þriðja sinn.

Við umræður um fyrirspurnir má engar ályktanir gera.“

Hér stendur ekkert um það að hæstv. forseti eigi að skera úr um það hvaða spurningar séu bornar munnlega fram við ráðherra. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum hæstv. forseta, og bætist nú enn við afglöp hans á forsetastóli.

(Forseti (HBl): Það er forseta að skera úr um það á fundum.)