131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:18]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Í dag eru mikilvæg tímamót í þessu merkilega máli, söluferli Símans, þegar kynnt er sú ráðagerð sem forsætisráðherra hefur gert hér grein fyrir um það með hvaða hætti staðið skuli að þessari sölu og tímaáætlun, sú sem hann kynnti.

Aðdragandinn að þessu máli er þingheimi að sjálfsögðu vel kunnur. Þingið hefur sjálft veitt heimild til þessarar sölu fyrir nokkru síðan en því miður fóru fyrri áform um sölu þessa fyrirtækis út um þúfur fyrir ríflega þremur árum, m.a. vegna þess að þá voru markaðsaðstæður ekki hagfelldar til að selja fyrirtækið. Nú er hins vegar lag til að selja þessa miklu eign á hagstæðu verði, leysa þar með úr læðingi þá gríðarlegu fjármuni sem almenningur í landinu á bundna í fyrirtækinu og beina því fjármagni í aðra farvegi í þágu lands og þjóðar. Það er um það sem þetta mál snýst fyrst og fremst að mínum dómi.

Ríkisstjórnin hefur sett sér ákveðin markmið í málinu, eins og hæstv. forsætisráðherra rakti. Þar kemur að sjálfsögðu við sögu númer eitt verðið á fyrirtækinu en einnig ýmis önnur markmið sem sett hafa verið því markmiði til hliðar.

Ég vil aðeins geta þess, herra forseti, að ráðgjafi sá sem unnið hefur fyrir framkvæmdanefnd um einkavæðingu og ríkisstjórnina í þessu máli hefur talið mjög mikilvægt að eignin öll sem ríkið á, tæplega 99% hlutabréfa í félaginu, verði seld í einu lagi. Það er talið að með sölu á eftirstandandi hlut í Símanum til kjölfestufjárfestis eða hóps kjölfestufjárfesta fái ríkið umtalsvert hærra verð á hvern hlut en í sölu til almennings eða sölu á lægri hlut til kjölfestufjárfesta. Þetta er mat ráðgjafa okkar. Meginskýringin á því er sú að með um 99% hlut í félaginu öðlast nýr eigandi full yfirráð yfir fyrirtækinu og er tilbúinn að greiða hærra verð fyrir vikið.

Í ljós hefur komið, herra forseti, að það er mikill áhugi á stórum hlut í þessu fyrirtæki, jafnt innan lands sem erlendis. Framangreind leið er til þess fallin að vekja áhuga og hvetja til samkeppni meðal fjárfesta. Að mati fyrirtækisins Morgan Stanley er ljóst að sala á lægri hlut væri til þess fallin að draga úr áhuga ýmissa fjárfesta eða fjárfestingarhópa, söluverð yrði lægra auk þess sem slík sala hefði meiri áhættu í för með sér fyrir ríkið þar sem markaðsaðstæður eru að sjálfsögðu breytingum háðar. Það er jafnframt mat ráðgjafarfyrirtækisins og framkvæmdanefndar um einkavæðingu að hvorki skuli gera greinarmun á innlendum né erlendum fjárfestum né heldur stofnana- eða fagfjárfestum.

Sú tímaáætlun sem nú liggur fyrir felur það í sér að nú eru aðeins örfáir mánuðir þangað til niðurstaða fæst vonandi í þetta mál. Að vísu verður áskilinn réttur til þess að hafna öllum tilboðum ef aðstæður eru þannig að þau þykja óviðunandi. Vonandi verður það ekki. En við sjáum sem sagt fyrir endann á þessu langa ferli, langþráðan endi á máli sem hefur verið undirbúið til margra ára, vonandi með þeirri niðurstöðu að ríkið og almenningur í landinu fái til ráðstöfunar gríðarlega mikla fjármuni sem verður verkefni okkar á Alþingi að finna stað fyrir, ýmist með því að draga úr skuldum ríkissjóðs eða ráðstafa aurunum í önnur þörf verkefni.

Þessu máli fylgir svo líka það sem hæstv. forsætisráðherra nefndi, og hæstv. samgönguráðherra mun gera betur grein fyrir, að nú skapast einnig lag til að leysa ýmis önnur vandamál, ekki síst á landsbyggðinni, hvað varðar fjarskiptamál sem menn hafa mikið talað um í sölum Alþingis að brýnt væri að leysa. Ég hygg að allir flokkar ættu að geta fagnað því og sameinast um svo mikilvægt átak í byggðamálum sem þar er raunverulega á ferðinni.

Ég fagna því, virðulegi forseti, fyrir hönd míns flokks og sem fjármálaráðherra hversu langt þetta mál er komið. Ég vona innilega að það ferli sem nú er fram undan gangi vel og farsællega fyrir sig og að þegar upp verði staðið verði þeim markmiðum sem við höfum sett okkur náð. Ég hef góða vissu fyrir því að svo muni fara.