131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:23]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra var fáorður um fyrri tilraun til einkavæðingar Símans. Hann vék ekki einu orði að því hvers vegna nú eigi að nota allt aðra og gjörbreytta aðferð við söluna en þá þótti gáfulegast. Kannski fáum við eitthvað upplýst um það á eftir af hvaða pólitískum ástæðum það er því að fátt bendir til að viðskiptalegar aðstæður séu með einhverjum þeim hætti svo gjörbreyttar að þangað séu sótt rökin.

Það er mikilvægt að hafa í huga að sú þjónusta sem hér á í hlut, fjarskiptaþjónusta, er almannaþjónusta. Þetta er grunnþjónusta í samfélagi okkar og greiður og góður aðgangur að þessari þjónustu á jafnræðisgrundvelli, bæði hvað varðar tæknilega möguleika og verðlag, er úrslitaatriði fyrir fullgilda þátttöku manna í upplýsingasamfélagi samtímans hvar sem þeir búa. Það liggur í eðli þessarar starfsemi mjög hliðstætt og um veitustarfsemi að hún lýtur að verulegu leyti lögmálum svonefndrar náttúrulegrar einokunar. Þess vegna er hæstv. ríkisstjórn að búa hér til það landslag á einu afar mikilvægu sviði viðskipta eða þjónustu í landinu að þar verður hönnuð fákeppni fyrir sérstakan tilverknað ríkisvaldsins, verður búin til fákeppni, væntanlega tvíkeppni þar sem tvö einkafyrirtæki í landinu koma til með að skipta á milli sín fjarskipta- og jafnvel að verulegu leyti einkarekinni fjölmiðlun á markaði sem að verulegu leyti lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar. Það er féleg framtíðarsýn sem þarna er búin til í samkeppnislegu tilliti. Það þarf ekki þriggja manna fund í Öskjuhlíðinni við slíkar aðstæður, tveggja manna tal nægir, eitt símtal til að bera sig saman um aðstæður á slíkum markaði.

Skoðanakannanir hafa sýnt að traustur meiri hluti þjóðarinnar er á móti því að selja Símann. 60% vilja að hann sé áfram í opinberri eigu. Ríkisstjórnin gengur þess vegna í þessu tilviki, eins og fleirum, gegn endurtekið staðfestum þjóðarvilja. Það varðar hana engu frekar en í Íraksmálinu eða öðrum slíkum tilvikum þó að það liggi fyrir alveg staðfest að þjóðin er á móti því sem þarna á að gera. Og það er þjóðin auðvitað vegna þess að hún óttast að þetta mál verði til lítils farnaðar.

Sérstakt tilræði er þetta auðvitað við landsbyggðina og framtíðarþróunarmöguleikana þar. Einhver dúsa, þó að hún sé upp á 1.500 milljónir í eitt skipti, til að sletta í fjarskiptakerfið þar sem fjárfestingar á ársgrundvelli hafa numið milljörðum, er lítils virði. Hvað sér eftir af því eftir 5 eða 10 ár? Það eru framtíðaraðstæðurnar sem þarna koma til með skipta sköpum. Halda menn að fyrirtæki í samkeppni, ef hún verður einhver, eða þá í fákeppni þar sem markaðnum og snotrum hagnaði er skipt á milli sín hafi mikinn áhuga á að leggja eitthvað á sig til að bjóða upp á þjónustu, bæta og efla hana og láta hana fylgja kröfum tímans á komandi árum og áratugum í strjálbýlum byggðum? Nei, hér er teiknað til mikils ófarnaðar og það hefur gefist illa þar sem menn hafa lent út á þá óheillabraut að einkavæða almannaþjónustu eða veitustarfsemi af þessu tagi. Það ætti að skylda ríkisstjórnina til að kynna sér hvernig þetta kom út í Nýja-Sjálandi eða þær efasemdir sem nú sækja á menn víða á meginlandi Evrópu, og eru þó markaðirnir stærri þar og forsendur dreifðrar samkeppni meiri en hér.

Landssími Íslands hefur verið ákaflega ábatasamt fyrirtæki, skilað 2–3 milljörðum í ríkissjóð undanfarin ár og 6–7 milljörðum í ár. Hefði ríkisstjórninni tekist ætlunarverk sitt, að selja Símann fyrir þremur árum, væri ríkið nú yfir 10 milljörðum fátækara sem komið hafa í arðgreiðslur, og fyrirtækið er væntanlega yfir 10 milljörðum verðmætara í dag en það var þá. Með öðrum orðum, það að ekki tókst að selja Símann fyrir þremur árum þýðir væntanlega nú að almenningur á þarna 20 milljarða viðbótarfjárhæð eða meira. Hvað er að því að eiga slíkt fyrirtæki áfram þegar það er sérstaklega haft í huga að mikilvægasti tilgangurinn er þó sá að þannig tryggja menn áfram að veita þessa þjónustu á jafnræðisgrundvelli um allt land?

Svo kemur skrípaleikurinn með ráðgjafarfyrirtækið fína, Morgan Stanley, sem hefur örugglega fengið vel borgað fyrir sinn snúð. En hvað stóð á forsíðu Morgunblaðsins á laugardaginn? „Halldór og Davíð hafa náð samkomulagi um sölu Símans.“ Þetta munu eiga að vera hæstv. ráðherrar, herra forseti, „Halldór og Davíð hafa náð samkomulagi um sölu Símans“. Þeir hafa „handsalað samkomulag“, stendur hér. Svo kemur í þriðju efnisgrein: „Einkavæðingarnefnd hefur ekki enn skilað niðurstöðum sínum til ríkisstjórnarinnar.“ Ha? Halldór og Davíð handsala samkomulag um það hvernig á að selja Símann og svo skilar einkavæðingarnefndin niðurstöðu.

Hér er á ferðinni áframhaldandi hrossakaupaforingjalýðræði í anda stjórnarflokkanna. Þetta er Íraksaðferðin, Halldór og Davíð hafa náð samkomulagi um einhverja enn nýja klæðskerasaumaða aðferð sem væntanlega á að tryggja það að velþóknanlegir aðilar fái Símann en alveg sérstaklega að tryggja að lítt þóknanlegir aðilar geri það ekki. Það verða réttir aðilar sem fá að kaupa samkvæmt þessari kostulegu aðferð og síðan endurselja almenningi 30%, (Forseti hringir.) kannski með drjúgum gengishagnaði og stinga honum í eigin vasa. (Forseti hringir.) Þetta er heimsmet í nýjum prjónaskap ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og er þá mikið sagt.

/Lauk á fyrri spólu/