131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:07]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson fór yfir þetta mál og gerði það af mikilli þekkingu sem eðlilegt er því að hann hefur verið mjög tengdur því alveg frá upphafi. Við 2. umr. málsins hafði hv. þingmaður fjarvistarleyfi og því saknaði ég hans í þeirri umræðu en nota nú tækifærið hér til að spyrja hv. þingmann spurninga sem ég gat ekki fengið svör við í 2. umr.

Ég vil taka fram strax í upphafi, frú forseti, að mér er umhugað um virðingu Alþingis og mér er umhugað um að framkvæmdarvaldið geti ekki leyft sér að hunsa vilja Alþingis þegar hann liggur fyrir, án þess að Alþingi grípi í taumana og reyni a.m.k. að móast við.

Því langar mig að spyrja hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að hann ásamt fleirum hafi lagt fram frumvarp til laga um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins skyldi veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa og það hefði farið í gegnum 1. umr. á Alþingi og verið vísað til sjávarútvegsnefndar. Hvort það sé réttur skilningur hjá mér að sjávarútvegsnefnd hafi að eigin frumkvæði ákveðið að afgreiða frumvarpið ekki út úr nefndinni heldur breyta því í tillögu til þingsályktunar um nánast sama efni. Ég sé þegar ég kynni mér skjölin að það kom tillaga frá nefndinni, frá sjávarútvegsnefnd í heild sinni, þar sem nefndin flytur tillögu til þingsályktunar um að ríkisstjórninni sé falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skuli að varðveislu gamalla skipa og nefnir sérstaklega Þróunarsjóð sjávarútvegsins í því sambandi.

Ég hafði ekki tekið sæti á Alþingi þegar þetta var og langar því að spyrja hv. þingmann: Er það réttur skilningur hjá mér að svona hafi ferill þessa máls verið? Og gæti hv. þingmaður í stuttu andsvari farið aðeins yfir þær umræður og væntingar sem sjávarútvegsnefnd hafði til þessa máls þegar það var afgreitt hingað inn sem þingsályktunartillaga?