131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:12]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin sem voru kannski eins og ég átti von á vegna þess að ég reyndi að kynna mér, þegar ég gekk frá nefndarálitinu ásamt fleirum í minni hluta sjávarútvegsnefndar, hvernig þessi mál hefðu gengið fyrir sig.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það voru þingmenn úr öllum flokkum sem fluttu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og var hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson 1. flutningsmaður þess. Aðrir hv. þingmenn voru Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason, þ.e. þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi fluttu þetta frumvarp til laga sem síðan var vísað til sjávarútvegsnefndar. Þar áttu sæti margir af flutningsmönnum þess á þeim tíma. Maður verður því eiginlega kjaftstopp og hissa þegar maður sér hvernig framkvæmdarvaldið leyfir sér síðan að fara með þingsályktun frá Alþingi, þingsályktun sem í raun er ekkert hægt að hártoga eða mistúlka því að hún er ákaflega skýr og segir nákvæmlega til um hvað ráðherrunum er falið að gera. En á fimm árum hefur þeim hæstv. ráðherrum ekki tekist að fara eftir tillögunni og nú er talað um að leggja niður þróunarsjóðinn án þess að það verði gert.

Mig langar að spyrja hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson í ljósi þess hvernig málið hefur þróast frá upphafi. Fyrst var það lagt fram sem frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, fór síðan til umfjöllunar í sjávarútvegsnefnd og kom þaðan út sem tillaga til þingsályktunar sem allir sjávarútvegsnefndarmenn voru sammála um og fékkst afgreitt á Alþingi með 49 greiddum atkvæðum. Enn hefur ekkert gerst og nú á að leggja niður þróunarsjóðinn án þess að gera nokkurn skapaðan hlut. Lítur ekki hv. þingmaður á þetta sem svik við það sem lofað var á sínum tíma? Er ekki í raun verið að teyma hv. þingmenn á asnaeyrunum í þessu máli?