131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[17:42]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni um að það er náttúrlega óþolandi að menn komi ekki hér og útskýri þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um hvort um sé að ræða annars vegar aumingjaskap, sem ég er ósammála, eða óheilindi, sem ég tel miklu líklegra. Þessir ágætu hv. þingmenn hafa orðið uppvísir að þvílíkum vinnubrögðum áður. Mér finnst að þeir ættu sóma síns vegna og einnig fyrir umræðuna í samfélaginu að koma hér og útskýra hvað þeir vilja. Eru sjávarútvegsmál það léttvæg að þegar þau eru rædd megi bara einfaldlega ætíð ganga á bak orða sinna og lofa einhverju fögru rétt fyrir kosningar eins og hv. þm. Hjálmar Árnason hefur orðið uppvís að? Ef við tölum um óheilindi þá tel ég að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi nú toppað allt hvað varðar óheilindi þegar hann, frú forseti, sveik öryrkja í sjálfu Þjóðmenningarhúsinu. Er þetta í rauninni það sem Framsóknarflokkurinn telur við hæfi? Við í Frjálslynda flokknum og í stjórnarandstöðunni fordæmum þessi vinnubrögð, að menn geti gengið hér á bak orða sinna hvað eftir annað og síðan þegar þeir eru spurðir á hinu háa Alþingi um afstöðu sína og hvað hafi breyst þá flýja þeir salinn. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum, frú forseti.