131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki stillt mig um að koma aðeins upp og kveðja mér hljóðs um þetta mál eftir að hafa hlýtt á ágætar ræður sem þingmenn fluttu nú síðdegis þar sem m.a. hefur verið farið yfir eldri frumvörp og þingsályktunartillögur sem lagðar voru fram fyrir Alþingi fyrir nokkrum árum, því ég skoðaði nefnilega þessa sögu nokkuð grannt fyrir tæpu ári þegar fjallað var um sama frumvarp, þ.e. um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Mig langar að nota tækifærið nú og fara aðeins yfir þetta þannig að það sé kannski svolítið á hreinu hvað hefur verið að gerast.

Það er rétt sem fram hefur komið að á 125. löggjafarþingi 1999–2000 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92 frá 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Flutningsmenn frumvarpsins voru hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson, Jóhann Ársælsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Steinar Jóhannsson og Hjálmar Árnason. Tökum eftir því að hér voru á ferðinni margir stjórnarþingmenn.

Þetta var mjög einfalt og stutt frumvarp og 1. gr. þess hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Þróunarsjóður sjávarútvegsins skal veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Fjárhæð styrks skal nema 50.000 kr. á hverja rúmlest skips sem tekið er til varðveislu eftir 1. janúar 1990.“

Fram kom í greinargerð með frumvarpinu að það skorti mjög fjármagn til varðveislu gamalla fiskiskipa sem menn vildu gjarnan eiga og vernda til framtíðar einmitt til að varðveita merka sögu í sjávarútvegi okkar. Skip sem tilheyrðu kannski tímabili þegar þjóðin var að komast til bjargálna, skip sem kannski réðu úrslitum um að byggðir lifðu af eða lognuðust út af, skip sem veittu mörgum fjölskyldum tækifæri til að koma undir sig fótunum. Einnig skorti fjármagn til að varðveita ýmiss konar búnað, margar minjar sem enn eru til og voru til víða um land, jafnvel húsakost, en það voru einmitt peningar úr þróunarsjóði sem voru notaðir til að bæði úrelda skip en líka einmitt hús sem höfðu verið notuð í tengslum við sjávarútveg.

Það er að sjálfsögðu alveg ljóst að við Íslendingar höfum alls ekki verið nógu dugleg að varðveita þessar minjar. Þó að víða megi finna gamla muni úr sjávarútvegi á byggðasöfnum hingað og þangað hefði að sjálfsögðu mátt gera miklu, miklu betur. Ég óttast mjög og reyndar veit það, eins og margir hafa rakið fyrr í dag, að margar merkar minjar hafa því miður endað á öskuhaugum og bálköstum síðustu árin.

Frumvarpið sem lagt var fram á 125. löggjafarþingi dagaði uppi. En nokkrum mánuðum síðar kom fram, eins og bent var á áðan, þingsályktunartillaga sem fór fyrir þingið á vordögum árið 2000, fyrir fimm árum. Þar var á ferðinni allt of sjaldgæft fyrirbæri sem fólst í því að sameinuð sjávarútvegsnefnd stóð að þeirri þingsályktunartillögu sem þá var, hv. þingmenn Einar K. Guðfinnsson, Jóhann Ársælsson, Árni R. Árnason, Kristinn H. Gunnarsson, Svanfríður Jónasdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón A. Kristjánsson, Vilhjálmur Egilsson og Hjálmar Árnason.

Sú þingsályktunartillaga, um varðveislu báta og skipa frá sjávarútvegsnefnd, var náttúrlega merkileg og hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.“

Þetta var samþykkt á hinu háa Alþingi 9. maí árið 2000, fyrir rétt tæpum fimm árum. Þingsályktunartillagan fór í gegnum þingið án átaka, varð að þingsályktun og þar með tilmæli til ríkisstjórnarinnar um að undirbúa tillögur um hvernig ætti að standa að varðveislu gamalla skipa og báta, sem eru einmitt mikilvægar minjar um atvinnu- og byggðarsögu. Einnig átti að móta reglur um þessa hluti. En síðan hefur ekkert gerst. Það var ekkert gert við þessa þingsályktunartillögu og á meðan hefur dýrmætur tími liðið og minjar farið í súginn.

Ég hygg að síðar meir, þegar sagnfræðingar framtíðar horfa um öxl og skoða þessa sögu þá verði þetta dæmi þeim mönnum til hneisu sem bera ábyrgð á því að ekkert var gert í þessum málum. Það er ljóst að þær minjar sem hafa eyðilagst á þessu tímabili, minjar sem kannski hefði verið hægt að bjarga ella, hefðu menn hafist handa fyrir fimm árum, eru annaðhvort ónýtar eða stórskemmdar og verða ekki endurheimtar. Þær minjar sem eru ónýtar verða ekki endurheimtar og til þeirra minja sem skemmst hafa á þessum fimm árum þarf núna að verja meiri fjármunum til að koma þeim aftur í sæmilegt horf. Tímans tönn er miskunnarlaus. Þarna tel ég að orðið hafi mikil mistök.

Þetta er að sjálfsögðu bæði stjórnvöldum, ríkisstjórninni, til skammar en þetta er líka mikill álitshnekkir fyrir Alþingi, að löggjafinn hafi verið hunsaður með þessum hætti af framkvæmdarvaldinu og framkvæmdarvaldið skuli komast upp þetta. Það er að sjálfsögðu alvarlegt mál og ætti í raun að kalla á ítarlegri umræðu bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu, hvernig framkvæmdarvaldið, þegar því hentar, hreinlega hunsar þingsályktanir sem afgreiddar hafa verið frá hinu háa Alþingi, oft og tíðum með mikilli fyrirhöfn og kostnaði, fundahöldum í þessum sal og í nefndum. Menn hafa sent inn umsagnir um þessa ályktun og menn hafa komið á fund þingnefnda. Þessu fylgir mikil skriffinnska og svona má lengi telja, en svo er ekkert gert með hlutina.

Ég get nefnt annað dæmi, fyrst hæstv. sjávarútvegsráðherra er í salnum. Hann var einu sinni ungur og efnilegur þingmaður og tók þátt í að leggja fram þingsályktunartillögu árið 1998. Hún fór líka í sömu skúffu hjá ríkisstjórninni sem virðist vera merkt „þingsályktunartillögur sem við ætlum alls ekki að framkvæma“. Þetta var ályktun Alþingis sem fól ríkisstjórninni að skipa nefnd hæfra manna sem átti að gera tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns. Þar voru engir aukvisar á ferðinni. Þar voru hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Árni M. Mathiesen og hv. þm. Guðni Ágústsson. Síðan þetta var hafa tveir flutningsmanna tekið sæti í ríkisstjórn Íslands. En var eitthvað gert með þingsályktunina? Nei, ekki neitt, ekki nokkur skapaður hlutur. Hún fór í skúffuna og hefur legið þar síðan. Um daginn bar ég fram fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra, sem ber ábyrgð á þessu því að ríkisstjórnin átti að sjá um þetta. Ég var með fyrirspurn til hans og hann svaraði, að ég taldi, með hreinum skætingi og reyndi að snúa þessu út í að ég væri hrifinn af því að skipa nefndir um allt milli himins og jarðar, að þetta væri fremur til vitnis um hvað ég væri mikill nefndasinni, að ég æddi upp á dekk og spyrði ósvífinna spurninga um þingsályktun sem mér kæmi ekkert við. En þó að þetta virðist smámál og menn brosi jafnvel að þessu í dag og þyki þetta í annan þráðinn hálffyndið þá er þetta mjög alvarlegt. Þetta er ekkert til að hlæja að. Varðandi Þingvallaurriðann þá er t.d. ljóst að ef menn hefðu tekið sig saman og gert eitthvað úr þeirri þingsályktun árið 1998 þá væri búið að nota tímann sem farið hefði til spillis til að vinna að raunhæfum tillögum um hvernig megi endurreisa þennan tiltekna urriðastofn. Í honum eru falin mikil verðmæti og ég er fullviss um að hæstv. sjávarútvegsráðherra er mér sammála um það.

Fyrst ég er farinn að tala um þetta mál vil ég líka geta þess að ég hef lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um þennan sama fiskstofn, sem gengur út á að stíflan við Steingrímsstöð verði hreinlega rifin og þessi stofn endurreistur. Ég vona að það fari ekki fyrir þeirri þingsályktunartillögu eins og þeim tveimur þingsályktunum sem ég hef fjallað um, virðulegi forseti. Ég vona að sú þingsályktunartillaga fái a.m.k. meðferð í þinginu og ef hún verði afgreidd verði Alþingi falið, í krafti meirihlutaeignar ríkisins í Landsvirkjun, að sjá til að Landsvirkjun fari í að vinna þetta verk, að fjarlægja þessa stíflu.

Virðulegi forseti. Ég sé í raun ekki mikla ástæðu til að tala mikið lengur um þessa hluti. Ég gæti það ef ég vildi. Mér er umhugað um að við varðveitum gamla báta og fleira þess háttar sem liggja víða um land undir skemmdum. Ég gæti nefnt nokkur dæmi um báta sem eru þess fyllilega virði að þeir verði gerðir upp, þeir verði settir á flot á nýjan leik og þeim siglt okkur til yndisauka og þeir jafnvel nýttir í tengslum við ferðamennsku. Við þurfum á svona skipum að halda. Við þurfum líka á því að halda að varðveita menningarsögu okkar. Það er t.d. afskaplega sársaukafullt að koma í Reykjavíkurhöfn og sjá hvernig Þór, gamla varðskipið okkar, lítur út í dag. Það er sömuleiðis sársaukafullt að horfa upp á það hvernig gömlu hvalbátarnir eru smám saman að grotna niður þar sem þeir liggja við bryggju. Þeir sem eru mjög merkilegir bátar á heimsvísu. Það er einnig mjög sorglegt að koma upp á Akranes og sjá hvernig kútterinn þar er nánast að hverfa ofan í jörðina. Það er kannski svolítið sterkt til orða tekið en í fullri alvöru þá er það skip mjög illa farið af nánast engu viðhaldi frá því að það var dregið á land fyrir nálega aldarfjórðungi. Annar bátur stendur uppi á kambi á Akranesi, Höfrungur, sem er mjög merkilegur, og er sömuleiðis að eyðileggjast.

Eflaust mætti fara í kringum landið og telja til báta og skip sem við hefðum að sjálfsögðu átt að varðveita. Okkur hefði verið sómi af því. Ég hygg að fyrir ímynd íslensks sjávarútvegs hefði verið gott að eitthvað af þessum peningum hefðu verið notaðir, peningar sem nú liggja í Þróunarsjóði, til að varðveita þessa sögu. Stórútgerðir þessa lands hefðu átt að sjá sér hag í að hvísla því í eyru hæstv. sjávarútvegsráðherra að það væri kannski ekki svo vitlaust að eyrnamerkja eitthvað af peningunum í það verkefni að varðveita sögu útgerðar á Íslandi. Þeir sem kunna að eiga eftir að naga sig mest í handarbökin í framtíðinni séu einmitt útgerðarmenn, yfir því að hafa ekki haft rænu eða ráð á því að reyna að varðveita eitthvað af þessum skipum, skipum sem þykja kannski hlægileg og lítil í dag en urðu á sínum tíma til að skapa þeim þá auðlegð sem þeir sjálfir búa við en einnig þá auðlegð sem þjóðin nýtur að hluta.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að þessari umræðu verði hreinlega frestað og mönnum verði gefið síðasta tækifærið til að athuga sinn gang. Ég hygg að hér séu menn að gera alvarleg mistök. Eins og ég hef sagt áður og segi enn þá: Við eigum eftir að sjá eftir því að hafa gert þetta. Ég vona að ef hæstv. sjávarútvegsráðherra talar á eftir þá komi hann ekki með þau rök að með því að við mælumst til þess að varðveita gamlar minjar þá séum við sjálfkrafa á móti því að peningar séu settir í hafrannsóknir. Við erum alls ekki á móti því. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er þörf fyrir peninga til hafrannsókna á Íslandi. En ég tel að við ættum að finna þá fjármuni með öðrum hætti en að ganga í þennan sjóð. Ég hygg að það sé auðveldara að finna peninga til hafrannsókna með öðrum hætti en að taka þá úr þessum sjóði, miklu auðveldara en að finna peninga til að nota í varðveislu gamalla minja sem tengjast sjávarútvegi. Við ættum frekar að nota þennan sjóð. Við vitum þó hvar þessi sjóður er og höfum ákveðin yfirráð yfir honum. Alþingi ætti að geta stýrt því fjármagni ef viljinn væri fyrir hendi. Við eigum ekki að láta þetta tækifæri okkur úr greipum ganga.

Fari þetta allt á versta veg heiti ég á þá þingmenn sem á sínum tíma veittu þingsályktuninni brautargengi fyrir fimm árum. Eins og hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi þá sitja margir þeirra enn á þingi og ef það er einhver bógur í þeim ættu þeir að sjálfsögðu að taka undir álit minni hluta sjávarútvegsnefndar í þessu máli og greiða atkvæði gegn því að þetta frumvarp fari í gegn eins og það lítur út núna.