131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:37]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það virðist vera að hæstv. ráðherra hafi ekki lagt við hlustir vegna þess að ég sagði einmitt að það væri ekki um aumingjaskap að ræða, heldur kallaði ég hlutina einfaldlega sínum réttu nöfnum. Ef menn standa ekki við orð sín og ekki við gefin loforð, hvað er það annað en svik, hæstv. ráðherra? Þetta er bara að tala hreint út um hlutina. Auðvitað eru það svik þegar menn handsala samning eins og hæstv. heilbrigðisráðherra gerði í Þjóðmenningarhúsinu og lofaði öryrkjum 500 milljónum. Það eru svik. Sama er með fjórmenningana sem ég taldi upp í ræðunni fyrr, að þegar þeir lofa sóknarkerfi fyrir kosningar og síðan greiða þeir atkvæði á móti því eftir kosningar. Það eru ekki annað en svik, í mínum huga er það ekkert annað.

Ég taldi þetta einmitt ekki vera merki um aumingjaskap heldur er þetta að standa ekki við orð sín (Forseti hringir.) og þetta er einfaldlega að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.