131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:47]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Myndast hefur sú hefð að ráðuneytin hafa sjálfstæði um það hvort skrifuð sé saga þeirra eða starfsgreina þeirra. Eins og hv. þingmenn muna stóð forsætisráðuneytið fyrir því að saga Stjórnarráðsins var skrifuð á síðasta ári, á 100 ára afmæli Stjórnarráðsins, þannig að það er engin þversögn í því. Hins vegar, eins og kom fram hjá mér fyrr í dag, heyrir varðveisla gamalla skipa og báta undir menntamálaráðuneytið og þar er unnið að því málefni á forsendum þjóðminjalaga og verður eflaust gert áfram.

Það er sjálfsagt rétt hjá hv. þingmanni að hægt er að gera ævintýralega hluti með þessum peningum í sambandi við varðveislu gamalla skipa og báta en það er líka hægt að gera ævintýralega hluti með þeim í hafrannsóknum. Ég held að við ættum að halda okkur við það eins og lögin kveða á um en ekki að skerða þá þvert á aðra hluti sem við höfum rætt í þinginu.