131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[19:10]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Árið 2000 gat engum verið ljóst hver niðurstaða í þróunarsjóðnum yrði ef hann yrði lagður af árið 2005. Alþjóðafjármálin, gengi gjaldmiðla og tekjur sjóðsins sveiflast allt of mikið til að það hafi getað verið ljóst þá. Hafi einhverjir tjáð sig um það þá hefur það verið byggt á jákvæðum spám og verið spá ein.

Varðandi það hvað hæstv. menntamálaráðherra hefur í huga get ég ekkert útlistað það meira en hún hefur gert í ræðu á þinginu og get ekki útfært þær gjaldtökuhugmyndir sem þar voru nefndar neitt frekar, en þær hafa ekki verið nefndar í tengslum við auðlindagjaldið eða veiðileyfagjaldið.

Síðan er það auðvitað misskilningur hjá hv. þingmanni að telja að ég sé eitthvað á móti því að varðveita gömul skip og báta. Ég er einfaldlega á móti því að rýra þá fjármuni sem renna eiga til hafrannsókna. Ég tel að hafrannsóknir okkar séu það mikilvægar að þeim veiti ekki af þeim krónum sem við á hv. Alþingi höfum ætlað til þeirra mála.