131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[19:12]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í andsvarinu upplýstist að ekkert liggur fyrir um að verið sé að finna fé í verkefni sem snúa að varðveislu gamalla skipa á milli hæstv. sjávarútvegsráðherra og hæstv. menntamálaráðherra.

Við höfum nokkrir þingmenn í dag minnst á nokkur verkefni sem þurfa talsverða fjármuni ef vel á að takast til við að endurbyggja skip og halda þeim við til framtíðar. Við höfum m.a. nefnt kútter Sigurfara, en það þarf mikla fjármuni til að gera hann upp og koma honum í það stand að hann verði sýningargripur til framtíðar og megi varðveita á sem bestan hátt. Ef hann yrði algjörlega endurbyggður væri jafnvel æskilegast að varðveita hann á floti til langframa. Hins vegar þarf það kannski ekki ef talsverðir fjármunir fást úr þróunarsjóðnum, ef það yrðu t.d. afgangs rúmar 100 millj. umfram 400 millj. væri hægt að gera verulegt átak í að bjarga því sem bjargað verður varðandi varðveislu gamalla skipa og í framtíðinni eftir að slíkt fjármagn væri fengið. En ekki held ég að það yrði auðsótt í fjárlögum og hefur ekki reynst vera það. Þar hafa menn verið að sletta ½ milljón og 1 milljón o.s.frv. í einstök dæmi og allt gott um það að segja. En ef það fengjust einu sinni virkilegir fjármunir til að gera bragarbót á þeim skipum sem verið er að varðveita gæti verið að slíkar fjárveitingar, sem fjárveitinganefnd hefur verið að setja í þetta á undanförnum árum, dygðu til viðhalds í framtíðina þegar búið væri að gera átak. Ég lýsi vonbrigðum yfir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi ekki tjáð sig um vilja til að koma að málinu með (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra.