131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[19:46]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi beina þeirri spurningu til hæstv. forseta hversu lengi hann hyggist halda áfram umræðunni.

Einnig vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hann geti hér úr ræðustóli lagt okkur hv. þingmönnum til leiðbeiningu í umræðum um þetta mál. Mér finnst það hafa komið fram í umræðunum í dag að með þingsályktanir eins og við höfum verið að ræða hér bæri lítið að gera, að ekki þyrfti sérstaklega að gæta þess að þær gengju fram eftir efni sínu. Þar sem ég veit að hæstv. forseti er með þingreyndustu mönnum og þekkir þingsköp og alla málsmeðferð inn og út þá vil ég beiðast þess að hann upplýsi okkur hv. þingmenn um hvað honum finnist um það ef sú staða kemur upp að við ljúkum máli þessu án þess að samþykktin sem gerð var hér á hv. Alþingi með samhljóða atkvæðum 49 þingmanna fái með neinum hætti afgreiðslu.