131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[19:57]

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur komið fram að á Alþingi hefur verið samþykkt tillaga til þingsályktunar um að veita skuli fjármagn úr sjóði sem hér er verið að samþykkja að leggja niður án þess að brugðist hafi verið við samþykkt þingsályktunartillögunnar.

Þegar umræðu um þetta mál lýkur, ef henni lýkur með þessum hætti eins og hér er stefnt að, og það verður samþykkt þá er í sjálfu sér tillagan til þingsályktunar sem Alþingi samþykkti á 125. löggjafarþingi marklaus þannig að þá ... (Forseti hringir.)

(Forseti (HBl): Ég vil benda hv. þingmanni, sem er kurteis maður, á að hann kvaddi sér hljóðs til að tala um fundarstjórn forseta. Nú hefur hv. þingmaður dottið í þá gryfju að hefja efnislegar umræður og mér virðist sem hv. þingmaður vilji ekki taka tillit til orða forseta. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hyggist hlýða ábendingum forseta eða ræða um efnisatriði málsins.)

Ég þakka fyrir góðar ábendingar hæstv. forseta. Beiðnin snýr að því að forseti fresti nú fundi.

(Forseti (HBl): Ég hef áður sagt að ég hafi hugsað mér að ljúka umræðunni.)

Já. Þá eru það ábendingar þingmannsins til forseta að hann endurskoði þá afstöðu sína og í ljósi einmitt stöðu málsins, þ.e. að hér er verið að ganga mjög á rétt Alþingis ef frumvarpið verður samþykkt án þess að vilji Alþingis sem kemur fram í þingsályktunartillögu sem hér hefur verið rætt oft um (Forseti hringir.) nái fram að ganga. Ábending mín til hæstv. forseta er sú að hann endurskoði afstöðu sína um frestun fundar og fresti fundi þannig að hægt verði að fara betur ofan í málið.