131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[20:00]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða fundarstjórn forseta. Ég velti fyrir mér hvort ekki gildi sömu reglur um alla þingmenn í þingsal þegar kemur að fundarstjórn hæstv. forseta. Ég kem upp til að spyrja viðbótarspurningar við spurningu sem forseti svaraði hér öðrum hv. þingmanni og gerði engar athugasemdir við að sá hv. þingmaður bæri þá spurningu hér upp. Þess vegna taldi ég í sakleysi mínu að mér væri óhætt að koma hér í sama stól og bera upp sams konar spurningu eða spurningu sem var viðbót við spurningu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar.

(Forseti (HBl): Ég gaf hv. þingmanni orðið til þess að hann geti borið fram þá spurningu.)

Þakka þér fyrir, virðulegur forseti. Ég var að velta fyrir mér, í ljósi þingreynslu forseta, hvort hægt væri að vísa til þess í þingsályktunum sem þingið hefði samþykkt með miklum meiri hluta að þar væri einhver partur sem ekki bæri að taka mark á, að þar væru einhverjar aukasetningar eins og í þeirri þingsályktun sem menn hafa verið að ræða hér og skiptir miklu máli í þessari umræðu, því að eftir að búið er að samþykkja lög um að leggja niður þróunarsjóðinn gerist ekkert meira varðandi það. Ef hæstv. forseti getur svarað þessari viðbót við spurningu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar þætti mér vænt um það og vísa þá kannski til þess að það skiptir máli upp á framhald umræðunnar og þar af leiðandi fundarstjórn, hvort hv. menntamálaráðherra verður hér í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast.