131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[20:02]

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg sáttur við að hæstv. forseti ætli að láta umræðuna ganga fram eftir kvöldi án þess að mönnum verði gefinn kostur á að gera hlé og fá einhverja næringu. Ég mótmæli því líka að farið sé í kvöldfundi fram eftir nóttu eins og hæstv. forseti lét í veðri vaka áðan án þess að gert sé ráð fyrir því. Ekki var gert ráð fyrir neinum kvöldfundi í dag og er það brot á þeim hefðum sem hæstv. forseti hefur virt fram að þessu að láta það ekki berast ef gert er ráð fyrir kvöldfundum. Mér finnst hæstv. forseti vera að þjóna svolítið geðslagi sínu ef hann tekur einhverjar skyndiákvarðanir um að hafa kvöldfundi algjörlega án þess að vita hversu lengi þeir muni standa og án þess að láta þingmenn með nokkrum hætti vita af því. Mér finnst það ekki góð fundarstjórn hjá hæstv. forseta ef það er reyndin að svo sé og mælist til þess við hæstv. forseta að hann hugsi sinn gang hvað þetta varðar. Hér eru þingmenn á mælendaskrá og þingmenn sem eiga eftir möguleika til að ræða málið betur og hér er fullkominn ágreiningur um framgang mála.

Hæstv. ráðherra sem verið hefur við umræðuna í dag hefur ekki gefið kost á neinu samkomulagi. Mér finnst full ástæða til að þetta mál fái meiri umræðu í framhaldinu og þeim þingmönnum sem ekki hafa haft hugmynd um að til stæði að hafa kvöldfund verði gefinn kostur á því að koma hér til skjalanna því það eru margir sem hafa áhuga á málinu. Það veit ég vel um.