131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[20:04]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að við stöndum hér og ræðum málefni þróunarsjóðsins er sú að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem gerir ráð fyrir að sjóðurinn verði lagður niður fyrr en gildandi lög gera ráð fyrir. Með öðrum orðum: Lagatextinn um þróunarsjóðinn er ekki óumbreytanlegur eins og hæstv. ráðherra virðist kjósa að halda fram nánast hér úr ræðustól. Hann talar eins og ekki sé hægt að breyta lögunum sem kveða á um að fjármunir þróunarsjóðs eigi að renna til hafrannsókna á sama tíma og hæstv. ráðherra leggur sjálfur fram frumvarp til laga um breytingar á þeim sömu lögum sem eru talsverðar. Ekki átti að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins fyrr en árið 2009. Ef hæstv. ráðherra kæmi ekki fram núna með frumvarp um að flýta niðurlagningu sjóðsins værum við ekki að ræða það hvernig gengi að láta þróunarsjóðinn standa sína plikt gagnvart þeirri þingsályktun sem samþykkt var á sínum tíma. Við stæðum kannski hér og veltum því fyrir okkur hvað hæstv. ráðherrar menntamála og sjávarútvegs ætluðu að gera á næstu árum, 2006, 2007, 2008 og 2009, ef sjóðurinn ætti að starfa til ársins 2009. Hve miklir fjármunir ættu að renna á þessum árum í það verkefni sem hæstv. sjávarútvegsráðherra upplýsir að sé á könnu hæstv. menntamálaráðherra, hve miklir fjármunir ættu að renna í að gera það sem fram kemur í tillögum þeirrar nefndar sem skipuð var í framhaldi af þingsályktuninni?

Eftir því sem hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði liggja núna fyrir hjá hæstv. menntamálaráðherra tillögur nefndar sem leggur til ákveðna hluti til að vernda gömul skip og báta, en fjármununum sem fylgja áttu, m.a. úr þróunarsjóðnum sem nú er verið að leggja niður, er í raun verið að koma undan til að þeir lendi ekki í því skelfilega verkefni, virðist manni, sem er að vernda gamla báta og gömul skip.

Frumvarpið sem við ræðum nú í 3. umr. gerði ráð fyrir að sjóðurinn yrði lagður af 1. júlí árið 2005. Sjávarútvegsnefnd gerði breytingartillögu sem segir að betra sé að bíða til 1. október á þessu ári. Ástæðan var sú að ekki er búið að gera upp sjóðinn og menn töldu að lengri tíma þyrfti til að gera upp allar eignir hans og greiða upp skuldir þannig að það lægi alveg hreint fyrir hvaða fjármuni sjóðurinn hefði.

Það er sem sagt lagt til að breyta því frumvarpi sem hæstv. ráðherra lagði fram og telur óumbreytanlegt, sjávarútvegsnefnd lagði til breytingartillögu við frumvarpið við 2. umr. og hefði alveg eins getað, eins og við ætluðum okkur í minni hlutanum, komið með tillögur um að Alþingi virti þann vilja sem fram kom þegar þingsályktunin var samþykkt, og eyrnamerkt ákveðna fjármuni úr sjóðnum fyrst fara á að leggja hann niður, í það verkefni að vernda gömul skip og báta.

Á sínum tíma þegar lögin um þróunarsjóðinn voru sett var Verkefnasjóður sjávarútvegsins ekki til. Það stóð ekkert í þeim lögum að þeir fjármunir sem eftir yrðu árið 2009 ættu að ganga í einhvern sjóð sem héti Verkefnasjóður sjávarútvegsins, hann var ekki til þá. Það stóð jú að þeir ættu að renna til hafrannsókna en ekki í gegnum einhvern sjóð sem vistaður er í sjávarútvegsráðuneytinu þar sem þrír starfsmenn ráðherra eru í sjóðstjórn og nánast innanhússmál í hvað þeir peningar færu sem koma í þennan Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Hæstv. ráðherra stóð ekki við það loforð sem hann gaf sjávarútvegsnefnd á sínum tíma varðandi þennan sjóð, að okkur yrðu kynntar reglur um úthlutanir úr honum áður en þær yrðu settar og að við fengjum að vita eitthvað um hverjir ættu að tilnefna eða hverjir ættu að koma í stjórn sjóðsins áður en til þess kæmi. Bæði þessi loforð sem gefin voru á fundum sjávarútvegsnefndar um Verkefnasjóð sjávarútvegsins voru svikin. Við nefndarmenn í sjávarútvegsnefnd stóðum frammi fyrir gerðum hlut. Búið var að setja ákveðnar reglur um hvernig úthlutanir úr verkefnasjóðnum færu fram og búið var að tilnefna þrjá starfsmenn ráðuneytisins í stjórn sjóðsins. Nú er verið að veita enn meiri peninga í þennan verkefnasjóð en gert var ráð fyrir áður að færu þangað. Það er ekki lítil breyting. Samt sé ég ekki að hæstv. ráðherra beri neinn kinnroða fyrir því að koma fram með þessa breytingu á lögum um þróunarsjóðinn.

Í frumvarpinu eins og ráðherra lagði það fram við 1. umr. var gert ráð fyrir að andvirðinu yrði varið til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar. Með öðrum orðum eins og ráð var fyrir gert í þróunarsjóðslögunum, að það væri Hafrannsóknastofnun sem fengi þessa peninga beint til sín og þeir gengju síðan til hafrannsókna á vegum þeirrar stofnunar. Meiri hluti sjávarútvegsnefndar, og reyndar tók minni hlutinn undir það í áliti sínu, taldi að hægt væri að breyta þessu og lagði til breytingartillögu sem gerir ráð fyrir að andvirðinu verði varið til hafrannsókna en ekki til hafrannsókna á vegum Hafrannsóknastofnunar.

Aftur er gerð breyting á því frumvarpi sem ráðherra lagði fram. Aftur gerir sjávarútvegsnefnd breytingu á því frumvarpi og hæstv. ráðherra kippir sér ekkert upp við það. En þegar menn draga upp þingsályktunina sem samþykkt var á 125. þingi 1999–2000 og benda á að þarna sé ákveðin kvöð sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins þurfi að uppfylla, þá snýst hæstv. ráðherra öndvert við og segir: Það er ekki hægt að standa í því að breyta einhverju sem stóð í lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Ég verð að segja alveg eins að þó að ég hafi ekki setið lengi á þingi þykja mér það öfug rök að koma fram með breytingar sjálfur, sjávarútvegsnefnd kom fram með breytingar eftir yfirferð sína, og þegar menn draga upp kvöð sem hvílir á sjóðnum og benda á það þá segir hæstv. ráðherra: Þetta kemur mér ekki við, það er annar ráðherra sem á að sjá um þetta. Haldið þið að við getum tekið eitthvað af þeim peningum sem áttu að fara til hafrannsókna og sett í eitthvert svona verkefni? Nei, mér finnst við eigum ekki að gera það.

Með öðrum orðum: Hæstv. ráðherra segir, þegar hann lýsir þessu yfir, að vilji hans, skilningur hans eigi að vera umfram skilning og vilja Alþingis.

Það er kannski óþarfi að eyða löngu máli í að fara yfir hlutverk þróunarsjóðsins — ég eyddi löngu máli á síðasta þingi í að fara yfir reikningsskil og eignir og annað því um líkt hvað sjóðinn varðar og ætla ekki að fara að gera það aftur nú — en sjóðurinn hefur starfað frá árinu 1994. Hlutverk hans var að veita styrki til úreldingar á fiskiskipum og einnig að kaupa fasteignir sem nýttar voru í fiskvinnslu og framleiðslutæki sem fylgdu þeim. Það sem við sáum einna helst var að hann var að greiða úreldingarstyrki til að minnka sóknargetu flotans, eins og það var kallað á þeim tíma, til að fækka skipum og gera greinina arðbærari fyrir þau skip sem eftir yrðu. Það verður reyndar að segjast eins og er að þrátt fyrir að mörg skip hafi verið úrelt minnkaði aldrei sóknargeta flotans. Þau skip sem komu ný inn í flotann voru með mun meiri sóknargetu en þau skip sem út féllu. Ég held að sóknargeta flotans hafi aldrei verið meiri en nú um stundir.

Sjóðurinn hafði á árunum 1994–1997 atbeina að því að 459 skip voru afskráð, 459 fleytur. Við sem vorum í greininni á þessum tíma munum hvernig farið var með þau skip og þá báta sem verið var að úrelda. Eyðileggingaræðið var algjört. Tortryggnin gagnvart því að þessar fleytur yrðu dregnar aftur á sjó síðar til að veiða fisk var slík að það varð með öllum ráðum að eyðileggja þessi skip þannig að það væri algjörlega hundrað prósent tryggt að þau gætu aldrei farið á sjó aftur, hvað þá farið að veiða fisk. Hvernig var þessum skipum eytt? Þau voru söguð niður. Ef það voru plastbátar voru þeir sagaðir niður þannig að þeir gætu aldrei verið settir saman aftur. Þeir voru eyðilagðir á þann hátt að ekki var hægt að bjarga þeim. Hluti þeirra var reyndar seldur úr landi til þróunarlanda, aðallega smábátar. Svo voru það gömlu eikarskipin, gömlu trébátarnir sem báru uppi vertíðarflotann á suðvesturhorni landsins og voru þar í hverri höfn fjölmargir og af öllum stærðum og gerðum.

Ég man eftir því sem strákur við höfnina í Sandgerði að það var ekki lítið af þessum bátum þar. Ég man líka alltaf eftir því þegar sýnt var í sjónvarpi þegar verið var að eyðileggja eikarbát, fallegan eikarbát í eikarlit og fánalitunum eins og oft var með þessa eikarbáta. Þetta var ekki stór bátur, 12–15 tonna bátur, það var sýnt í sjónvarpi þegar verið var að eyða þeim bát og það var gert með öxum. Hann var hogginn niður, bátur sem ekkert var að, til að koma í veg fyrir að hann gæti nokkurn tíma farið á sjó aftur. Sjóði sem hefur staðið fyrir slíkum hlutum, sjóði sem hefur staðið fyrir því að hvetja til, borga fyrir og stuðla að því að þjóðarverðmæti séu eyðilögð á þann hátt sem ég var að lýsa hér, ber að gera eitthvað í því þegar menn segja að við þurfum að reyna að bjarga því sem eftir er, við verðum að reyna að bjarga einhverju af þessum þjóðararfi sem við eigum þó hér enn þá.

Með öðrum orðum er verið að breyta lögum um þróunarsjóð á Alþingi. Verið er að breyta því frumvarpi sem ráðherra lagði fram í upphafi umræðunnar. Það eru engin rök að ekki sé hægt að taka tillit til þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti með 49 atkvæðum og breyta lögunum með tilliti til hennar. Það eru falsrök að halda því fram að þar sem um þingsályktunartillögu sé að ræða þurfi ekki að taka mikið mark á henni. Sérstaklega, eins og ég lýsti í fyrri ræðu minni, þegar við horfum til þess hvernig þingsályktunartillagan verður til. Hún verður til í framhaldi af því að menn leggja fram lagafrumvarp um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, nákvæmlega það sama og verið er að gera hér. Sjávarútvegsnefnd, menn úr öllum flokkum, taldi sig vera að tryggja það með þingsályktunartillögunni að fjármunir frá þróunarsjóði mundu renna til þessa verkefnis, að vernda gömul skip og báta. En ef þetta er réttur skilningur voru þeir einfaldlega vélaðir til að breyta frumvarpi í þingsályktunartillögu sem hæstv. ráðherrar telja að þeir þurfi ekki að fara eftir eða taka neina ábyrgð á.

Það eru hæg heimatökin hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að spyrja núverandi ráðuneytisstjóra sinn, Vilhjálm Egilsson, um það með hvaða hætti frumvarpinu var breytt í þingsályktunartillögu, því samkvæmt gögnum þingsins sat Vilhjálmur Egilsson í sjávarútvegsnefnd á þeim tíma sem þetta var gert. Það eru því hæg heimatökin að forvitnast um það frá fyrstu hendi frá ráðuneytisstjóra sjávarútvegsráðuneytisins hvernig farið var að því að breyta frumvarpinu þegar það kom inn eftir 1. umr. í sjávarútvegsnefnd í þá þingsályktunartillögu sem borin var upp á þingi og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Við sem höfum lesið í gegnum umræðurnar sem urðu í kringum þingsályktunartillöguna vitum alveg hvað um var að vera. Umræðurnar gefa algjörlega til kynna hver vilji sjávarútvegsnefndar var á þessum tíma og hver vilji þingsins var. Menn þurfa ekki að velkjast í vafa um það sem lesa í gegnum umræðuna sem varð um þingsályktunartillöguna á sínum tíma. Því verð ég að segja að ég verð fyrir vonbrigðum þegar hæstv. ráðherra kemur og gerir lítið úr, að mér finnst, þingsályktunartillögunni, segir að hún sé ekki á sínu forræði, hún sé hjá menntamálaráðherra, henni beri að uppfylla þingsályktunartillöguna og gerir síðan lítið úr, eins og ég ræddi um við hæstv. forseta um fundarstjórn forseta, setningu í texta þingsályktunartillögunnar sem segir að Þróunarsjóður sjávarútvegsins eigi m.a. að taka þátt í að fjármagna vörslu gamalla skipa og báta.

Ef þetta er ekki algjörlega skýrt þá veit ég ekki hvernig menn eiga að orða tillögur sem fara fyrir þingið til að það fari alls ekki á milli mála hvað menn meina. Ég reikna með að þeir 49 þingmenn sem samþykktu þingsályktunartillöguna á sínum tíma, og hæstv. forseti er í hópi þeirra þingmanna, hafi vitað nákvæmlega hvað þeir voru að samþykkja. Það fer ekkert á milli mála þegar maður skoðar tillöguna og umræðurnar að hv. þingmenn voru að samþykkja að hluti af fjármunum Þróunarsjóðs sjávarútvegsins færi í það verkefni að vernda gömul skip og báta. Allt annað eru hártoganir. Allt annað eru reykbombur sem verið er að skjóta á loft til að reyna að fela hvað verið er að gera. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvort það er vísvitandi verið að leggja niður sjóðinn núna áður en einhverjir fjármunir renna úr honum til þessa verkefnis sem um ræðir, til að ekki þurfi að koma til þess að sjóðurinn taki þátt í verndun gamalla skipa og báta.

Ég á bágt með að trúa því að menn séu í alvöru að koma fjármunum sjóðsins undan því verkefni. Ég neita að trúa því, en þannig lítur það út, vegna þess að sjóðurinn á að starfa til 2009. Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra: Á hverju liggur? Ég veit að það kostar að reka sjóðinn á hverju ári, en sjóðurinn hefur ekki lokið hlutverki sínu. Úr því ekki má taka hluta af þeim fjármunum sem eftir verða við uppgjör og færa í þetta verkefni sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir hefur sjóðurinn ekki lokið hlutverki sínu. Hann hefur m.a. það hlutverk samkvæmt þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var að taka þátt í fjármögnun á varðveislu gamalla skipa og gamalla báta. Undan því verður ekki vikist og mér þykir hálfhlálegt að horfa á með hvaða hætti hæstv. ráðherra reynir að þyrla upp ryki þannig að það felist í orðræðunni og umræðunni hvað verið er að gera.

Fjárlaganefnd þingsins á hverju ári hefur reynt að taka þátt í verkefninu. Á hverju ári er styrkt endurbygging á örfáum bátum, yfirleitt smábátum, og ekki gert ráð fyrir að fjárlaganefnd geti vísað fjármunum í stór verkefni sem mörg hver kalla á mikla fjármuni, heldur má segja að hér sé af veikum mætti verið að styrkja þá viðleitni, aðallega einstaklinga og félagasamtaka vítt og breitt um landið, að reyna að bjarga litlum bátum sem eru að verða eyðileggingu að bráð. Það hefur tekist mjög vel víða með það, en þetta er bara brot af þeirri þörf sem fyrir hendi er og það er okkur til skammar með hvaða hætti við stöndum að varðveislu þeirra gömlu minja sem sjóinn varða. Hér er tækifæri. Hér er tækifæri til að gera átak í þessum málum án þess að finna hjólið upp á nýtt, vegna þess að þingsályktunartillagan liggur fyrir. Vilji Alþingis er skýr og ekki neinum vandræðum undirorpið að framkvæma þann vilja Alþingis sem hér hefur komið fram með mjög skýrum hætti.

Einnig er rétt að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju liggur á að klára umræðuna án þess að hæstv. menntamálaráðherra geti tekið þátt í henni? Það er ekki búið að gera sjóðinn upp enn þá. Við vitum ekki hver endanleg niðurstaða verður í eignum sjóðsins. Því verki lýkur ekki fyrr en einhvern tímann á næstu vikum. Það liggur ekki á þess vegna að klára málið núna einn, tveir og þrír. Gert var ráð fyrir því í frumvarpi ráðherra að sjóðurinn yrði lagður niður 1. júlí. Það er öllum orðið ljóst að það gengur ekki og var breytingartillaga samþykkt eftir 2. umr. um að það yrði 1. október. Þeim mun frekar liggur okkur ekki á að drífa málið af með þeim látum að ekki gefist kostur á því að ræða við þá ráðherra sem búið er að vísa á í umræðunni að hafi með þau málefni að gera sem hér um ræðir.

Getur verið að við séum að verða vitni að einhverri togstreitu á milli ráðherra og milli ráðuneyta? Við vitum að ráðherrar og ráðuneyti reyna að fá ramma sína víkkaða og stækkaða á hverju ári. Við vitum að menn eru ekki tilbúnir að setja mikla fjármuni í verkefnið. Getur verið að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé að segja: Hæstv. menntamálaráðherra hefur með þetta að gera þrátt fyrir að það standi í þingsályktunartillögunni að þróunarsjóðurinn eigi að koma að því. Við skulum líta fram hjá því, tökum alla peningana í verkefni sem heyra undir sjávarútvegsráðuneytið beint, pössum að ekkert af peningunum fari út úr sjávarútvegsráðuneytinu og höldum þeim öllum þar. Hæstv. menntamálaráðherra verður svo bara að eiga við það að uppfylla þingsályktunartillöguna og reyna að koma fyrir þing með hugmyndir um með hvaða hætti eigi að vera hægt að fjármagna það. Getur verið að þetta sé kveikur að því að nú vilja menn leggja niður þróunarsjóðinn og gera það hratt áður en sjóðurinn fer að leggja nokkra fjármuni til verndunar gamalla báta og skipa?

Eins og áður hefur komið fram hjá mér var hæstv. forseti einn af þeim þingmönnum sem samþykkti þingsályktunartillöguna og ég vona að hæstv. forseti hafi ekki breytt um afstöðu til málsins frekar en aðrir hv. þingmenn sem greiddu þingsályktunartillögunni atkvæði sitt á sínum tíma. Því hvað hefur breyst á þeim fimm árum frá því þingsályktunartillagan var samþykkt? Hefur þörfin minnkað fyrir að vernda gömul skip og báta? Nei, ég held að hún hafi aukist frekar en hitt, því eftir því sem tíminn líður þeim mun brýnni verður þörfin á því að vernda þau skip sem um ræðir. Ég held því að þörfin hafi ekki minnkað heldur frekar aukist ef eitthvað er. Eru fjármunirnir í þróunarsjóðnum minni en menn gerðu ráð fyrir? Er það þess vegna sem ekki má taka fjármuni þaðan í þau verkefni sem Alþingi ætlaði þeim að fara í? Nei, það er ekki svo. Það eru meiri fjármunir í Þróunarsjóði sjávarútvegsins en gert var ráð fyrir þegar tillagan var samþykkt á sínum tíma.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, eru uppi þær aðstæður að það er auðveldara að uppfylla vilja Alþingis nú en fyrir fimm árum vegna þess að það eru meiri fjármunir fyrir hendi í sjóðnum en áður.

Hvað getur valdið því að framkvæmdarvaldið ætlar að komast upp með að hunsa tillögu sem samþykkt var á Alþingi með mjög miklum meiri hluta? Ég verð að taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað og lýst undrun sinni á því hvernig hv. stjórnarþingmenn greiða atkvæði oft á tíðum. Það er eins og einhverjir einn eða tveir megi eingöngu hugsa fyrir hjörðina og síðan verði hjörðin að fylgja. Þetta er náttúrlega þekkt í hjarðhegðun hjá sauðfé að það eru forustusauðir fyrir hjörðum. Þegar forustusauðurinn tekur stefnuna lúta allir hinir sauðirnir höfði og elta hann hvert sem hann fer, burt séð frá því hvert hann er að fara. Þeir eru ekkert að hugsa um það. Þeir eru með forustusauð og honum fylgja þeir hvert sem hann fer, í hvaða veðri sem er, við hvaða aðstæður sem er. Jafnvel er dæmi um að jarmandi sauðir sem lúta höfði á eftir forustusauð hlaupa á eftir honum fyrir björg, af því að forustusauðurinn klikkaði einhverra hluta vegna og hljóp fyrir björg, þá fer öll hjörðin þangað. Manni dettur þetta stundum í hug þegar maður sér með hvaða hætti hv. stjórnarþingmenn greiða atkvæði á Alþingi. Nei, ekki lyfta upp höfðinu, það gæti vakið athygli ef ég er með einhverja aðra skoðun en hjörðin. Ekki lyfta upp höfðinu. Lúta höfði og rétta upp höndina eins og allir hinir. Þannig get ég kannski komist til einhverra metorða. Þannig verð ég kannski einhvern tímann alvöru stjórnmálamaður.

Ég held að hæstv. sjávarútvegsráðherra yrði maður að meiri að taka á málinu með okkur, viðurkenna að við það að leggja fram frumvarp um niðurlagningu Þróunarsjóðs sjávarútvegsins hafi honum einfaldlega sést yfir það að á sjóðnum hvíldi ákveðin kvöð sem Alþingi var búin að setja á hann. Nú þegar búið er að fara yfir það mál og rifja upp með hvaða hætti það kom til og með hvaða hætti það var afgreitt sé rétt að taka sér tíma í að kanna með hvaða hætti þróunarsjóðurinn geti tekið þátt í því verkefni. Það er mér að meinalausu að sú breytingartillaga sem minni hlutinn stendur fyrir við 3. umr. sé þess vegna hent út í hafsauga ef mönnum líður betur með það að meiri hlutinn komi með einhverja breytingartillögu, bara að hún tryggi að Alþingi fari að þeim vilja sem lýst var í atkvæðagreiðslu þegar greidd voru atkvæði um þingsályktunartillögu um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins ætti að taka þátt í að vernda gömul skip og gamla báta.

Við megum ekki, alþingismenn, láta spyrjast um okkur að það skipti í raun og veru engu máli hvað sé verið að samþykkja hér svo fremi að það eru ekki lög, að Alþingi geti í sjálfu sér ekki treyst því að þegar búið er að vísa máli til ákveðins fagráðherra verði því fylgt eftir, vilji Alþingis komi fram.

Ég trúi því ekki, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, að allur sá fjöldi hv. þingmanna sem greiddi þingsályktunartillögunni atkvæði á sínum tíma sé búinn að skipta um skoðun. Ég trúi því ekki að þeir allir muni lúta höfði og rétta upp hönd, eða ýta á takka eins og við gerum hér í sölum Alþingis, ég trúi því ekki, það yrði að mínu viti endanleg staðfesting á því að framkvæmdarvaldið telur sig ekki þurfa að fara mikið eftir því sem samþykkt er hér á Alþingi nema að það séu lög. Hrein og klár yfirlýsing um það.

Rök um að ekki sé hægt að taka þetta inn í þá breytingu sem við erum að gera á lögunum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins halda ekki. Þau eru bara bull. Við erum hér til að breyta lögunum. Við stöndum í umræðu um það að breyta lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Við virðumst geta breytt þeim á allan hátt annan en þann að fara að vilja þingsins. Það er ekkert því til fyrirstöðu að breyta lögunum þannig að vilji þings nái fram að ganga. Ekki neitt.