131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:47]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Konur eru líka menn, segir einhvers staðar, og eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir benti á núna rétt áðan geta bændur líka verið konur. Hins vegar kemur það skýrt fram í svari hæstv. landbúnaðarráðherra til málshefjanda, hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur, að landbúnaðarráðuneytið er því miður svarti sauðurinn í jafnréttismálum þegar kemur að flóru íslenskra ráðuneyta. Aðeins fjórar konur voru skipaðar í stöður á vegum ráðuneytisins frá árinu 1999 til ársloka 2004 af 27 umsækjendum. Þetta eru aðeins 18%.

Ef við lítum á starfandi nefndir og ráð á vegum ráðuneytisins eru konur þar aðeins 18% aðalmanna. Þegar kemur að varamönnum er hlutfallið aðeins skárra, þó ekki nema 31% konur.

Sú meginregla gildir á Íslandi að allir skuli jafnir fyrir lögum óháð kynferði. Jöfn staða kynjanna hefur verið stjórnarskrárbundin á Íslandi frá árinu 1995, auk þess sem við höfum sérstök jafnréttislög sem hafa verið hér í gildi frá árinu 1976.

Fyrir nákvæmlega ári ræddum við þingsályktunartillögu frá hæstv. félagsmálaráðherra um jafnréttismál. Þar kom í raun og veru mjög skýrt fram það sem ég sagði áðan að landbúnaðarráðuneytið er því miður svarti sauðurinn í þessum málum. Þetta er eitt af fáum ráðuneytum þar sem engin jafnréttisáætlun er til staðar. Það er einungis landbúnaðarráðuneytið, Hagstofan og sjávarútvegsráðuneytið sem geta státað af þessum vafasama heiðri.

Svona má áfram lengi telja. Við ræddum þetta svo sem í þaula í fyrra, við minntumst á þetta þá í ræðum, því miður er ekki að sjá að landbúnaðarráðuneytið hafi gert mikla bragarbót síðan þá (Forseti hringir.) og það ber að sjálfsögðu að harma.