131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:49]

Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir hæstv. landbúnaðarráðherra hálfvanmáttugur í stuðningi sínum. Árangurinn er harla lítill og ég held að hann hafi komist að sumu leyti að lykilástæðunni þegar hann talaði um efnahagslega hagsmuni. Konur eru bændur og það er mjög mikilvægt starf að vera bóndi. Ég get ekki séð neina stóra efnahagslega mismunandi hagsmuni á konum í sveitum eða annars staðar, en það sem blasir hér við er að staða þeirra er engan veginn eðlileg í ákvarðanatöku, stjórnsýslu, menntun eða öðru.

Ég varð dálítið hissa þegar hæstv. landbúnaðarráðherra talaði um sérstakar framfarir í ráðuneyti sínu. Ég horfi á að á sama tíma, frá árinu 1999, hefur hans ágæta ráðuneyti skipað fjórar konur og 23 karla í stöður. Þetta finnst mér ekki kraftmikið í þessum hluta. Ég held að það vanti að taka konur sem eru bændur alvarlega.

Konur sem eru bændur hafa vit á rekstri bús síns, mjólkurframleiðslu, fjárrækt og öðru slíku. Ég tel mikilvægt að hæstv. ráðherra taki sérstakt frumkvæði og sýni árangur í því að breyta stöðunni. Ég trúi því að sé það gert af alvöru og festu sjáist einhverjar afleiðingar af því að konur séu fullgildir þátttakendur í þessari atvinnugrein.