131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:56]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Þessi umræða utan dagskrár er athygliverð og ágæt. Sem innlegg í hana vil ég nefna að konur á Íslandi hafa örugglega ekki haft meiri áhrif á nokkurn atvinnuveg hér á árum áður en einmitt landbúnaðinn þegar heimilin voru stór, stórfjölskyldan, mikil umsvif heima á heimilunum. Þá voru það konurnar sem höfðu hvað mest áhrif í þeirri atvinnugrein sem við erum að ræða um, landbúnaðinum. Þetta veit auðvitað hæstv. landbúnaðarráðherra betur en allir aðrar. Hins vegar hafa konur kannski ekki notið þess í umræðunni hversu mikið þær hafa haft um landbúnaðinn að segja.

Nútíminn er annar, það eru nýir tímar og við þurfum að huga að ýmsum þáttum rétt eins og hv. þm. Jón Bjarnason nefndi áðan. Hann kom inn á einmitt þessi réttindi, og skyldur þá um leið, sem hafa af hálfu ríkisins ekki fallið að því rekstrarformi sem landbúnaðurinn hér hefur verið rekinn á undangengna áratugi, þ.e. að við rekum landbúnaðinn almennt á kennitölu bóndans sem í fleiri tilfellum er karlmaður. Ég hef talið að einkahlutafélag væri heppilegra rekstrarform í landbúnaðinum. Þá skila sér hlutir eins og kvóti, fasteignamat, lífeyrissjóðsgreiðslur, virðisaukaskattur, tryggingafélög og fleiri þættir samfélagsins. Þetta rekstrarform, eins og það er nú, hentar ekki einni kennitölu. Þess vegna er miklu auðveldara og einfaldara að nota rekstrarformið einkahlutafélag. Ég hvet bændur (Forseti hringir.) til að fara þá leið og þá fá konur beinni aðild að rekstri sínum.