131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi.

698. mál
[14:04]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga. Ástæða þess að þessi nýsamþykktu lög eru komin að nýju til meðferðar í þinginu með þessu frumvarpi er að ýmis vandamál komu upp við framkvæmd þeirra og ágreiningur hafði risið um túlkun þeirra. Þetta á sérstaklega við um skilgreiningar á hugtökunum „efnisflutningar“ og „flutningar í eigin þágu“.

Það má geta þess að ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur gerði athugasemdir við gildandi lög sem rétt þótti að bregðast við. Athugasemdirnar snerust fyrst og fremst um eftirlitið sem komið var á. Rétt er að taka fram að breytingarnar varða einungis vöru- og efnisflutninga en ekki var hróflað við ákvæðum laganna um fólksflutninga.

Við samningu frumvarpsins var sérstaklega skoðað og metið hvort þörf væri á að viðhalda atvinnuleyfum fyrir starfsgreinarnar sem undir lögin falla. Víðtækt samráð var haft við hagsmunaaðila um þetta en skoðanir eru óneitanlega mjög skiptar innan akstursgreinanna, bæði um leyfisskylduna og ekki síst um eftirlit gildandi laga.

Með frumvarpi þessu er leitast við að koma til móts við sjónarmið allra hagsmunaaðila sem óneitanlega eru nokkuð mismunandi, enda flutningsstarfsemi sú sem undir lögin fellur um margt ólík.

Meginmarkmiðin með frumvarpi þessu eru að einfalda stjórnsýslu á þessu sviði og gera það skýrara hvaða starfsemi það er sem er leyfisskyld og fellur undir lögin. Einnig að það sé augljóst til hvaða úrræða sé unnt að grípa þegar uppvíst verður um ólögmæta starfsemi.

Það sem helst hefur valdið ágreiningi við framkvæmd laganna er skilgreining á því hvað er „flutningur í eigin þágu“ og hvenær slíkur flutningur er lítill hluti af starfsemi fyrirtækja en það er skilyrði eigi flutningurinn að vera leyfislaus.

Hugtakið „efnisflutningar“ hefur einnig vafist fyrir mönnum og þá helst hvað fellur undir slíka flutninga og hvað eru efnisflutningar í eigin þágu. Frumvarpi þessu er ætlað að bæta úr þessu og skilgreina á einfaldan og skýran hátt hvenær akstur er leyfisskyldur og hvenær ekki. Leyfisskyldan sem slík hefur í sjálfu sér ekki sætt mikilli gagnrýni af hálfu hagsmunaaðila og má almennt segja að ánægja sé með skilyrðin sem lögin setja fyrir leyfunum. Gagnrýnin hefur frekar beinst að eftirlitinu. Sumir segja að eftirlitið sé of mikið en aðrir að það sé heldur lítið þannig að úr vöndu er að ráða. Þá hefur verið gagnrýnt að eftirfylgni vegna tilkynninga um meint brot gegn lögunum sé ekki fyrir hendi.

Niðurstaða af endurskoðun laganna var að ekki væri ástæða til að afnema leyfisskylduna, atvinnuleyfi leiði til formfestu innan stéttarinnar og setji ákveðinn gæðastimpil á hana í heild. Frekar þyrfti að skýra betur og með einfaldari hætti hvaða akstur fellur undir lögin og koma til móts við sjónarmið ólíkra hagsmunaaðila innan stéttarinnar er það varðar. Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsins eru eftirfarandi:

1. Hætt er að greina milli vöruflutninga og efnisflutninga. Tekið er upp heitið farmflutningar og breytist heiti laganna til samræmis. Hugtakið farmur tekur yfir hvers kyns vörur og efni og því þykir ekki ástæða til að gera greinarmun á því hvað er flutt enda ræðst leyfisskyldan ekki af því.

2. Hugtökin flutningur í atvinnuskyni og flutningur í eigin þágu eru skilgreind upp á nýtt og við það leitast að gera hugtökin skýr og einföld. Allur flutningur í atvinnuskyni er leyfisskyldur og skiptir ekki máli hvað er flutt, heldur er áherslan á það hvort um eiginlega flutningastarfsemi er að ræða, þ.e. að viðkomandi hafi atvinnu af henni og fái einhvers konar endurgjald fyrir. Allir flutningar í eigin þágu verða áfram leyfislausir, hvort sem er hjá einstaklingum eða fyrirtækjum. Hins vegar er nýmæli að ekki skiptir máli hversu stór hluti af starfsemi fyrirtækisins flutningurinn er. Ef hann er sannanlega í eigin þágu, þ.e. ekki er um aðkeypta flutningsþjónustu að ræða, er flutningurinn leyfislaus.

3. Eitt af helstu nýmælum í frumvarpinu er að öllu formlegu eftirliti Vegagerðarinnar með því að flutningsaðilar hafi leyfi er hætt. Eftirlitið með þessu er þannig sett til stéttarinnar sjálfrar, enda verður að telja hana best til þess fallna að sinna því. Vegagerðin mun taka við ábendingum um aðila sem starfa án leyfis. Einnig verður unnt að tilkynna til Vegagerðarinnar um leyfishafa sem uppfylla ekki lengur skilyrði fyrir leyfi.

4. Í frumvarpinu eru skýr ákvæði um hvernig Vegagerðin skuli bregðast við tilkynningum og til hvaða úrræða stofnuninni er heimilt að grípa í kjölfarið. Ákvæði þessi eiga að taka af allan vafa um það hvert hlutverk Vegagerðarinnar er og skyldur hvað þetta varðar. Veitt er heimild til að stöðva ökutæki sem tilkynning varðar, en rétt þykir, til að taka af allan vafa, að taka fram að Vegagerðinni er þetta einungis heimilt í kjölfar tilkynningar, aldrei að eigin frumkvæði.

5. Nýmæli eru í frumvarpinu um brottfall leyfa, annars vegar um sjálfkrafa niðurfellingu og hins vegar heimild Vegagerðarinnar til að fella leyfi úr gildi. Reglur þessar eru einfaldar og skýrar og er það nauðsynlegt þar sem um íþyngjandi aðgerðir gegn leyfishöfum er að ræða.

Eins og áður kom fram er frumvarpi þessu ætlað að gera það skýrara og einfaldara hvenær flutningur er leyfisskyldur og hvenær undanþeginn leyfisskyldunni. Einnig er með frumvarpinu íþyngjandi eftirliti létt af þeim sem undir lögin falla. Í staðinn er gert ráð fyrir að hægt verði að bregðast við tilkynningum um meint brot gegn lögunum á skýran og ótvíræðan hátt og grípa til viðeigandi aðgerða til að stöðva lögbrot. Með þessu verður að telja að betur sé gætt hagsmuna þeirra er undir lögin falla.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.