131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi.

698. mál
[14:21]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég skal hafa mál mitt stutt. Það varðar orð hæstv. ráðherra. Hann gaf í skyn að þeir sem ættu í erfiðleikum með að sópa saman pappírum í miklum bunkum til Vegagerðarinnar og væru gáttaðir á því að gögnin þyrfti að vera svona umfangsmikil væru bókhaldsskussar. Því er rétt að ég lesi upp skilyrði 6. gr. reglugerðarinnar til að fá rekstrarleyfi en þar segir, með leyfi forseta:

„a) Áritaður ársreikningur eða staðfest skattframtal.

b) Rekstraráætlun fyrir yfirstandandi ár og næsta ár. Vegagerðin getur óskað eftir staðfestingu endurskoðanda um að hún sé rétt miðað við gefnar forsendur.

c) Skrifleg yfirlýsing frá innheimtuaðila ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að umsækjandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld.

d) Staðfesting á starfshæfni.

e) Sakavottorð.

f) Ljósrit af skráningarskírteini bifreiða.“

Ég átta mig ekki á í rauninni hvað Vegagerðin er að gera með allar þessar upplýsingar. Þó að þessir ágætu einyrkjar séu hissa á því að þurfa að safna saman öllum þessum upplýsingum er ekki þar með sagt að þeir hafi hlutina í ólagi, eins og hæstv. ráðherra gaf í skyn. Þeir eru bara hissa á þessari stjórnsýslu. Nánast í sama orðinu sagði hæstv. ráðherra að hann væri að einfalda stjórnsýsluna. Það er einfaldlega ekki rétt. Það er mjög flókið að þurfa að tína saman hina og þessa pappíra. Ekki trúi ég því að hæstv. ráðherra — það hefur komið fram að Sjálfstæðisflokkurinn leynir því hverjir greiða í kosningasjóði flokksins. Það er leyndarmál. Er þar eitthvað? Hefur flokkurinn eitthvað að fela? Hvers vegna er það ekki opinbert?

Mér finnst svolítið sérstakt að heyra fulltrúa flokks brigsla mönnum, sem furða sig á því að þurfa að taka saman hina og þessa pappíra úr bókhaldi, um að þeir hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Þeim finnst kannski bara of langt gengið að þurfa að senda þessa pappíra til Vegagerðarinnar og skilja ekkert í því. Hæstv. ráðherra er sjálfur fulltrúi stjórnmálaafls sem leynir því hverjir greiða í kosningasjóði flokksins. Mér finnst það alveg með ólíkindum. Og mér finnst í rauninni að hæstv. ráðherra ætti að líta sér nær í staðinn fyrir að brigsla einyrkjum um skussahátt þegar þeim finnst nóg komið um alla pappírsmylluna sem hæstv. ráðherra er að koma upp hjá Vegagerðinni.