131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:24]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Í frumvarpi til laga um breyting á lögum um úrvinnslugjald eru lagðar til tvær breytingar, annars vegar að vaxtatekjur af úrvinnslugjaldi skuli renna til Úrvinnslusjóðs í stað ríkissjóðs og hins vegar er lagt til að fresta um fjóra mánuði gildistökuákvæði sem heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðir.

Forsaga þessa máls er að Úrvinnslusjóður hefur til þessa ekki fengið vaxtatekjur af innstæðum sjóðsins heldur hafa þær runnið í ríkissjóð. Úrvinnslusjóður er þannig uppbyggður að vöruflokkum sem greiða inn í sjóðinn er skipt upp í uppgjörsflokka og skal tekjum hvers flokks eingöngu varið til þess að mæta gjöldum þess flokks. Ákvörðun gjaldsins byggir á áætlun um magn og útgjöld og er þess gætt að jafnvægi sé í hverjum uppgjörsflokki. Sé gjaldtaka umfram útgjöld munu vaxtatekjur lækka þá upphæð sem innheimta þarf í framtíðinni af viðkomandi vöruflokki.

Í ljósi þess að úrvinnslugjaldi er aðeins ætlað að standa undir umhverfisvænni endurvinnslu, endurnýtingu eða förgun þeirra vöruflokka sem lagt er á tel ég mikilvægt að vaxtatekjur af úrvinnslugjaldi renni til sjóðsins en ekki í ríkissjóð.

Einnig legg ég til að frestað verði gildistökuákvæði sem heimilar gjaldtöku á pappírs-, pappa- og plastumbúðum um fjóra mánuði, þ.e. til 1. janúar 2006. Rétt er að benda á að innsöfnun á pappírs-, pappa- og plastumbúðum frá heimilum og fyrirtækjum mun hefjast á réttum tíma. Úrvinnslusjóður lagði til þessa breytingu en mat sjóðsins á þörfinni á að fresta gildistöku ákvæðisins byggir á samráði við sérstaka verkefnisstjórn hagsmunaaðila. Verkefnisstjórnin telur að atvinnulífið þurfi lengri aðlögunarfrest til að geta skilað inn upplýsingum um þyngd umbúða í samræmi við það kerfi sem lögleitt hefur verið.

Kerfið gerir ráð fyrir að innflytjendur gefi upp nákvæma þyngd umbúða þegar vara er flutt til landsins. Innflytjendur geta þó ef þeir hafa ekki nákvæmar upplýsingar um raunþyngd umbúða notað tiltekna reiknireglu. Það er mat Úrvinnslusjóðs að gera þurfi tillögur að nýjum og nákvæmari reiknireglum sem verði þá þannig úr garði gerðar að innflytjendur og framleiðendur geti nýtt sér þær í upphafi álagningartímans með meiri sanngirni í álagningu en núverandi kerfi gerir ráð fyrir. Það er alveg ljóst að þetta hefur reynst flóknara en gert var ráð fyrir í upphafi þegar farið var af stað með þetta mál.

Vinna er nú þegar hafin við gerð nýrra reiknireglna sem innflytjendur munu geta nýtt sér þar til þeir hafa fengið nákvæmar upplýsingar um raunþyngd umbúða. Ég stefni að því að leggja fram frumvarp þess efnis fyrir Alþingi í upphafi haustþings 2005.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. umhverfisnefndar að lokinni 1. umr.