131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Úrvinnslugjald.

686. mál
[14:38]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég get tekið undir með þingmönnum hvað það snertir að ég var sjálf undrandi yfir því að beðið skyldi vera um þennan frest. Ég hafði talið þegar við fjölluðum síðast um þessi mál, fyrir síðustu áramót, að það væri alveg ljóst að unnt væri að koma þessari framkvæmd á með sómasamlegum hætti og að aðlögunartíminn væri nægilegur. Það kom mér því jafnmikið á óvart og þeim hv. þingmönnum sem hér hafa gert þetta að sérstöku umtalsefni.

Sú verkefnisstjórn sem hefur metið þetta svo og þekkir málið gjörla telur hins vegar að það sé hreinlega ekki unnt að leggja á þessar umbúðir þegar í raun er vitað að framkvæmdin verður ekki í lagi og að það þurfi lengri tíma. Þetta snýst fyrst og fremst um það að vanda framkvæmdina og ég tel að það væri ábyrgðarlaust af umhverfisráðherra að skella við skollaeyrum þegar þetta liggur fyrir.

Það er engu metnaðarleysi um að kenna að komið er fram með mál af þessu tagi, heldur er hér eingöngu horfst í augu við staðreyndir. Ég vil taka það skýrt fram að ég hef leitað mjög fast eftir því að þetta gangi fram miðað við þann frest sem hér er verið að biðja um og ég legg til samkvæmt þessu frumvarpi. Ég vil gjarnan að það komi skýrt fram af minni hálfu að ég hyggst ekki flytja frumvarp um frekari fresti í þessum efnum hvað þetta tiltekna mál varðar.