131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[14:46]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Frumvarp það sem ég mæli fyrir um breytingu á lögum nr. 53/1995, um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, er flutt vegna vaxandi áhuga hjá sveitarfélögunum á að taka fráveitur sem einkaaðilar reisa á leigu.

Í frumvarpinu er lagt til að við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist tveir nýir liðir sem heimila styrki til framkvæmda sem einkaaðilar taka að sér á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings, með sambærilegum hætti og þegar sveitarfélögin standa sjálf fyrir framkvæmdum. Samkvæmt lögunum njóta þær framkvæmdir einar styrkja í dag sem sveitarfélögin sjálf standa fyrir. Dæmi eru hins vegar um að sveitarfélag hafi staðið fyrir framkvæmdum en síðan selt mannvirkin og tekið þau á leigu. Eðlilegt væri að lögin heimiluðu styrkveitingar til fráveituframkvæmda á vegum einkaaðila, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings, enda falli þær undir markmið laganna. Sambærilegt ákvæði er að finna í lögum um tekjustofna sveitarfélaga þar sem heimilt er að veita styrki til stofnframkvæmda við grunnskóla sem fjármagnaðar eru samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings. Lagt er til að heimilað verði að styrkja sveitarfélögin í slíkum tilvikum þegar um fráveituframkvæmdir er að ræða og gert ráð fyrir að sett verði reglugerð um nánari framkvæmd heimildarinnar.

Fráveitunefnd fjallar um styrkumsóknir og framkvæmda- og kostnaðaráætlanir sveitarfélaga vegna framkvæmda í fráveitumálum á yfirstandandi ári. Nefndin áætlar styrkhæfni hverrar framkvæmdar og gerir tillögu til umhverfisráðherra um framlag til fráveitumála sveitarfélaga.

Fráveitunefnd hefur borist umsókn vegna fráveituframkvæmda á vegum einkaaðila en samkvæmt gildandi lögum hefur ekki verið hægt að verða við þeirri beiðni. Það er brýnt að breyta lögunum þar sem þau mismuna sveitarfélögum eins og ákvæði þeirra er í dag.

Frú forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.