131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[14:52]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er ekki langur lagabálkur sem verið er að breyta og ég skil eiginlega ekki hvers vegna lögunum er þá ekki breytt fyrst á annað borð verið er að gera það nú, að lengja gildistíma þeirra um þrjú ár. Ég hefði talið miklu nærtækara að gera þetta í sömu atrennu.

En það er annað atriði í lögunum sem er mjög mikilvægt að breyta. Það varðar einnig 3. gr. og snertir sérstaklega minni sveitarfélögin. Í 3. gr. kemur fram að „undirbúningsrannsóknir, hönnun, kostnaður við útboð, fjármagns- og lántökukostnaður og kaup á löndum og lóðum vegna framkvæmda í fráveitumálum njóta ekki fjárstuðnings.“

Það er mjög mikilvægt einmitt fyrir minni sveitarfélögin, þar sem ég þekki ágætlega til, að styrkja sérstaklega undirbúningsrannsóknir og fara yfir það hversu mikil þörf er á að útbúa og búa til hin og þessi mannvirki. Minni sveitarfélög standa oft á tíðum varnarlítil gagnvart tillögum frá verkfræðistofum um mjög dýrar framkvæmdir. Þess vegna hefði ég talið að hæstv. ráðherra ætti einmitt að leggja áherslu á að styrkja þá þætti. Ég sé ekki að þessi einkavæðingaráform séu það mikilvæg og miklu nær sé að horfa til þess að styrkja undirbúningsrannsóknir þannig að minni sveitarfélög standi betur að vígi þegar verið er að ákveða framkvæmdir upp á margar milljónir, ef ekki jafnvel tugi og hundruð milljóna kr.