131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[14:55]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki athugasemdir við þær breytingar sem hér koma fram, ég tel þær reyndar bara til bóta og víkka út lögin. Stuðningur við framkvæmdir í fráveitumálum skipta sveitarfélögin gríðarlega miklu máli og þess vegna gleðst ég yfir því sem kom fram í umræðunni að til standi að hann haldi áfram, alla vega næstu þrjú árin.

En mig langar til að benda hæstv. umhverfisráðherra á að til eru sveitarfélög sem réðust út í umfangsmiklar fráveituframkvæmdir áður en lög þessi tóku gildi og þær framkvæmdir voru í raun og veru undanfari þess sem koma skal, menn hafa verið að byggja eða halda áfram slíkum framkvæmdum. Fyrsta stigið hefur ekki verið styrkt en síðan er annað stigið styrkt. Ég held að það skipti mjög miklu máli og ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að kynna sér það hjá þeim sveitarfélögum sem höfðu ráðist í fráveituframkvæmdir áður en lögin tóku gildi, því að þessar undirstöðuframkvæmdir verða síðan til þess að hægt sé að hreinsa fráveitur á fleiri þrepum og fleiri stigum.

Ég vil nefna sem dæmi að á Hvolsvelli, sem er 30 km frá sjó, var ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir árið 1992 og ef ég man rétt var Össur Skarphéðinsson umhverfisráðherra á þeim tíma. Nú er verið að hreinsa frárennsli þar með enn betri hætti en áður var en ekki hafa fengist styrkir á þetta fyrsta stig. Það skiptir mjög miklu máli að taka svona framkvæmdir í heilu lagi og vafalítið er um fleiri sveitarfélög að ræða. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér þetta og þá að víkka lögin með þeim hætti að til meiri styrkja gæti komið.