131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:17]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég talaði ekki um ágóða og gróða sem eitthvað ljótt. Það á heima þar sem það á heima. Ég hef enga möguleika á að meta hvort stétt í samfélaginu eigi rétt á þeim launum sem hún hefur eða ekki. Mér finnst það fráleit umræða og ekki á nokkurn hátt hægt að tengja hana því sem ég sagði áðan.

Hins vegar get ég upplýst hv. þm. Pétur H. Blöndal um að mér fyndist ekkert óeðlilegt að það væri ekki margfaldur munur á lægstu launum hjá hinu opinbera og hæstu launum. Ég minnist þess mjög vel að Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs, taldi fráleitt að það ætti að vera meira en um það bil þrefaldur munur innan kerfis hins opinbera. Ég set það ekki fram sem mína skoðun en mér fyndist ekkert fráleitt að það væri einhvers konar launastrúktúr sem segði að starf einhvers væri ekki svo verðmætt að það gæti verið tífalt, tuttugufalt eða þrjátíufalt á við einhvers annars. Mér fyndist það ekkert fráleitt. Það er mitt pólitíska viðhorf.

Ég er að draga fram að í sumum tilfellum þegar sveitarfélög fá einkaaðila til að byggja fyrir sig skóla á skólalóðinni sem hefur verið tekin frá í viðkomandi hverfi fyrir hann og þegar tíminn er liðinn sem samningurinn var í gildi og einkaaðilinn á allt sem er þarna, þá hefur hann það fullkomlega í hendi sér hvaða kröfur hann gerir á sveitarfélagið. Ég er ekki fylgjandi því að sú leið sé farin og sömuleiðis geri ég mjög mikinn greinarmun á því hvort líknarfélög reka t.d. hjúkrunarheimili eða hvort einkaaðilar byggja og reka hjúkrunarheimili eins og hver önnur viðskipti. Ef þeir vilja gera það og ef viðskiptaaðilar vilja eiga viðskipti við þá, allt í lagi, en þá á ekki að koma til opinbert fé.