131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:22]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fór yfir víðan völl í holræsisumræðunni sem varð til þess að ég tók við mér og kom hingað upp, en kostnaður sveitarfélaga eins og fram hefur komið er mjög mismunandi eftir aðstæðum, landfræðilega o.s.frv. og hér er verið að ræða um að jafnræði þurfi að gilda í þessum efnum.

Ég er persónulega ekkert hrifinn af því að sveitarfélög selji skóla, leikskóla, félagsheimili og þess háttar, langt í frá, en hér er um þverpólitískt mál að ræða því ég veit ekki betur en oddviti bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum, Lúðvík Bergvinsson, hafi einmitt staðið fyrir því að þær eignir í Vestmannaeyjum hafi verið seldar. Hér er því um þverpólitískt mál að ræða og ekkert endilega einhverjir hægri sinnar eða einhverjir sem eru í fylkingarbrjósti félagshyggjumanna o.s.frv. Þetta er mjög mismunandi á Íslandi. Ég tek Vestmannaeyjar sem dæmi þar sem sjálfstæðismenn voru beinlínis á móti þessu en V-listinn, sem er saman settur að hluta til af samfylkingarmönnum, hefur barist fyrir þessu.

Sveitarfélög eins og Hveragerði hafa lagt í gríðarlega mikinn kostnað vegna fráveitumála og ég er ekki frá því að lögin sem hér er verið að breyta tengist einmitt því byggðarlagi og því sem gert hefur verið þar. Ég bendi líka á að félagslegar framkvæmdir í Reykjavík hafa verið í einkaframkvæmd, t.d. Egilshöll. Ég veit ekki betur en sum hótel sem hafa verið byggð hér hafi að hluta til verið félagsleg framkvæmd varðandi fornleifar og annað slíkt. Hér er því um þverpólitískt mál að ræða og við þurfum ekki að vera óskaplega heilög á svipinn þegar við ræðum það.