131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:54]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi andsvör og vil taka undir það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni varðandi félagsmálaráðuneytið. Nú eru uppgjörsaðferðir sveitarfélaga á fyrirtækjaformi og það er öllum fyrirtækjum skylt að gefa upp skuldbindingar sínar í reikningum sínum, hvort sem menn eru með flugvélar, skip eða hvað sem er á slíkri leigu, þannig að hjá sveitarfélögunum á það að vera alveg eins. Mér er það algjörlega óskiljanlegt þegar maður er að skoða reikninga og fjárhagsáætlanir sveitarfélaga í dag að þetta skuli ekki vera tekið fram. En ég vara enn og aftur við þessari aðferð. Menn geta falið lélegan rekstur. Hvað gerist svo þegar menn eru búnir að selja allt frá sér? Hvað gera menn þá ef menn eru að reka með bullandi halla og safna skuldum og ekkert stendur bak við það? Hvað gera bændur og búalið þá í sveitarfélögunum?