131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[16:02]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Mér var hugsað til þess áðan þegar ég hlýddi á ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar að ég gæti hugsanlega fallið frá orðinu þar sem hann sagði í raun og veru það sem ég vildi sagt hafa í ræðu minni um stöðu sveitarfélaganna varðandi það að setja framkvæmdir sem teljast á sviði skylduþjónustu sveitarfélaga yfir í einkarekstur og hvaða þróun hefur verið í gangi og í hvaða stöðu sveitarfélögin geta verið eftir nokkur ár þegar í ljós kemur hver endanleg fjármögnun hefur orðið af þeirri þróun sem nú er í einkaframkvæmdum hjá sveitarfélögunum.

Frumvarp það sem hér um ræðir er stutt og einfalt og snýr að einum þætti í stóru máli sem er fráveitumál sveitarfélaganna. Ég segi stórt mál því að þær kröfur sem nú eru gerðar til sveitarfélaganna hvað varðar fráveitumálin eru miklar. Sveitarfélögin stóðu frammi fyrir því með löggjöf um fráveitumál að fara, mörg hver, út í mjög dýrar framkvæmdir og flóknar. Aðstæður eru mjög mismunandi og ekki einfalt að koma fyrir einni hönnun eða einni lausn sem hægt er að nota um allt land, það verður því að grípa til mismunandi útfærslu í fráveitumálum sveitarfélaganna.

Frumvarpið snýr að þeim stuðningi sem varð að koma til til þess að mögulegt væri að fara í þetta mikla átak og hann nær til ákveðins tímabils, þ.e. tímabilið sem um ræðir er frá maí 1995 til 31. desember 2005, en í framsögu sinni áðan upplýsti hæstv. umhverfisráðherra að til stæði nú á haustmánuðum að framlengja þetta tímabil um þrjú ár. Í sjálfu sér get ég tekið undir það, því að verkin standa þannig að enn er langt í land og ósanngjarnt væri að klippa á styrkina núna þar sem sveitarfélögin verða ekki öll búin að koma málum sínum í nægilega gott horf í lok ársins. Þetta er því tímabundinn styrkur við framkvæmdirnar.

Ástæða þess að verið er að koma með breytingartillögu er sú að í lögum um styrkveitinguna er gert ráð fyrir að allar framkvæmdir og rekstur á fráveitu sveitarfélaganna sé á þeirra vegum. Það kemur svo í ljós þegar sveitarfélögin eru að fara út í annars konar rekstur eins og nú hefur komið upp að sá rekstur eða þær framkvæmdir eru ekki styrkhæfar. Undir þeim formerkjum er verið að gera það mögulegt að sveitarfélög sem fara út í einkaframkvæmd eða einkarekstur fái sama styrk og önnur sveitarfélög.

Ég tel að þessi undanþága núna eða útvíkkun á ákvæðunum um styrkina sé ávísun á að lögum um fráveitur sveitarfélaga verði breytt, að einkaframkvæmdin muni koma inn í lög sem lúta að fráveitumálum sveitarfélaga. Þegar búið verður að gefa grænt ljós á það með þessari útvíkkun í frumvarpinu, verði það sett inn til framtíðar. Ég óska eftir því að hæstv. umhverfisráðherra svari því hvort hún geri ráð fyrir því í þeim breytingum á lögum um fráveitur sveitarfélaga sem hún hefur nú boðað, að sveitarfélagið geti haft val á milli þess að vera með fráveitur í eigin rekstri eða að bjóða þær út í einkaframkvæmd. Það væri þá algjör kúvending á þeirri hugsun sem ég taldi að við Íslendingar hefðum sameinast um, að grunnþjónusta eins og drykkjarvatnið og frárennslið væri í eigu og rekstri sveitarfélaganna. Nú er þetta farið að riðlast. Því er þetta frumvarp, þótt lítið sé, aðeins brot af miklu stærra máli sem við verðum að hafa í huga.

Því tek ég undir orð hv. þm. Gunnars Birgissonar að það er í raun og veru fjárhagsleg staða sveitarfélaganna og kröfur til þjónustu þeirra sem hefur knúið þau mörg hver til að fara í það að selja fasteignir og setja rekstur skólanna eða byggingar og rekstur mannvirkjanna yfir í einkaframkvæmd. Það er ekki alls staðar vegna pólitísks vilja eða að pólitíkin liggi þannig í sveitarfélögunum. Þar get ég vísað til míns heimasveitarfélags, sem er Fljótsdalshérað, að í sjálfu sér liggur ekki pólitískur vilji til þess að stefna skuli að einkavæðingu í slíkum rekstri, heldur er horft til rekstrarstöðu sveitarfélagsins og hvernig bókhaldsreglur sveitarfélaganna hvetja í rauninni til þess að sú leið sé farin frekar en að hafa byggingar og rekstur alfarið á vegum sveitarfélagsins.

Í því tilfelli sem hér hefur verið vísað til að þetta lúti sérstaklega að framkvæmdum á Fljótsdalshéraði, þá keypti sveitarfélagið þau tæki sem nú eru notuð af ákveðnum aðila til þess að hreinsa skolpið með alveg nýjum hætti og í rauninni mjög góðum, sem ég tel að muni að öllum líkindum ryðja sér víða til rúms. Þetta er ný tækni hér á landi og sveitarfélagið gat valið hvor það keypti þennan búnað eða hvort það færi þá leið sem það valdi, að óska eftir að þessi ákveðni aðili annaðist byggingu í einkaframkvæmd og sæi um reksturinn næstu 20 árin. Með bókhaldsformi sveitarfélaganna kemur þetta hreinlega þannig út, það var reiknað út — með litlu reiknivélinni og litlu margföldunartöflunni að ég tel — að það væri rekstrarlega hagkvæmara fyrir sveitarfélagið að fara þá leið sem það gerði.

Eftir sem áður er þetta grundvallarbreyting í hugmyndafræði um ábyrgð og rekstur sveitarfélaganna og með vísan til framtíðarinnar ávísun á einkarekstur á þessu sviði. Þessi grunnþjónusta, fráveiturnar og neysluvatnið, er það mikilvæg að það fyrirtæki sem hefur hana í hendi sér, hefur í raun og veru tak á því sveitarfélagi, en þar sem ákveðið sveitarfélag og ákveðin framkvæmd hefur verið dregið inn í umræðuna vil ég að það komi fram að í því tilfelli er bæði um aðferðafræði og fyrirtæki að ræða sem er mjög traust. Ég er ekki að beina spjótum að fyrirtækinu sem slíku, heldur vali sveitarfélagsins og því að sveitarfélögin skuli vera svo illa sett um þessar mundir að þau neyðist til að fara þessa leið eða telji það hagkvæmara.

Hvað verður næst hjá þessu sveitarfélagi eða öðrum? Verður haldið áfram að reikna það út með litla reiknistokknum og þeim stóra að það sé hagkvæmara fyrir hvert sveitarfélag að fara í einkarekstur á vatnsveitunum? Hver verður kostnaður sveitarfélaganna af þessum framkvæmdum og rekstri þegar upp er staðið? Vatnsveitur eru sú grunnþjónusta sem meira að segja Sameinuðu þjóðirnar hafa beint sjónum heimsins að, að menn snúi nú af villu síns vegar og komi þeim út úr einkaframkvæmd og inn í samfélagslega ábyrgð þar sem einkaframkvæmd á rekstri vatnsveitnanna hefur víða um heim bitnað á fátækari þjóðum og fátækum íbúum hvers lands þar sem rekstrarkostnaður þeirra hefur hækkað, gjöldin hækkað og þjónustan versnað.

Ég vil vísa til þess að ákveðin þjónusta er á ábyrgð sveitarfélaganna og það hlýtur að vera krafa okkar að ekki sé hægt að höndla með þá þjónustu í ábataskyni. Ég tel að að skoða verði þetta frumvarp með tilliti til þess að verið er að opna fyrir til framtíðar breytingu á lögum um fráveitumál sveitarfélaga þannig að einkaframkvæmd verði talin jafngild og framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna eða sem þau bera sjálf ábyrgð á og annast um. Í þeirri stóru mynd er ákveðinn rekstur sem ekki á að vera rekinn þannig að hann geti verið í hagnaðarskyni eða bisness eins og nefnt var áðan hvort heldur það er í byggingarframkvæmdum fyrir sveitarfélögin eða í vatnsveitum og fráveitumálum.

Ég sagði áðan að ég teldi, ég vil að það komi skýrt fram, að þetta væri hluti af rekstrarvanda sveitarfélaganna og uppgjörsforminu gagnvart félagsmálaráðuneytinu sem hvetur í raun til slíkra breytinga á rekstri.

Hér voru nefndir vinstri grænir á Héraði sem sýnir að ekki eru allir jafnvel að sér um framboð til sveitarstjórna. Því miður buðu vinstri grænir ekki fram sér lista og eiga ekki sér fulltrúa í sveitarstjórn heldur var boðinn fram listi félagshyggjufólks, fólks sem er hvar sem það sjálft kýs að vera undir merkjum félagshyggju, hvort þar eru flokksbundnir vinstri menn eða aðrir. En það er þeirra mál. Því miður eigum við þar ekki fulltrúa í sveitarstjórn sem kosnir voru undir merkjum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þá hefði styrkur okkar hugsanlega komið enn betur fram.