131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[17:08]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var komið víða við. Mikilvægt að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Alveg rétt. Að sveitarfélögin hafi nauðsynlegt svigrúm til að athafna sig og taka ákvarðanir á eigin forsendum. Alveg rétt. Það hafa þau einmitt ekki. Þau eru víða mjög aðþrengd og svo aðþrengd að þau hafa freistast til að fara út í óhagkvæmar lausnir vegna þess að til skamms tíma þjóna þær hagsmunum þeirra. Þá er spurningin sú hvernig ríkisvaldið bregst við. Að sjálfsögðu þarf að rýmka og auðvelda sveitarfélögunum að afla sér meiri tekna, en við megum ekki heldur setja inn hvata inn í kerfið til þess að þau haldi út á þá braut sem allir sem tekið hafa þátt í umræðunni í dag hafa varað við.

Þetta er einstakt mál, segir hæstv. ráðherra. Við skulum ekki blanda því saman við hina almennu þróun. Það er engu að síður gert í þessu þingmáli og athugasemdum sem birtast með því, því fyrsta setningin er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Vaxandi áhugi er hjá sveitarfélögunum að taka fráveitur sem einkaaðilar reisa á leigu.“

Með öðrum orðum, þetta tiltekna afmarkaða mál sem okkur er sagt vera svo er sett í samhengi af hálfu ríkisstjórnarinnar og hálfu hæstv. ráðherra inn í þessa almennu þróun og að menn séu að bregðast við þessari almennu þróun. Það stendur hér svart á hvítu.