131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[17:15]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki á hverjum degi sem hæstv. umhverfisráðherra fær tækifæri til að ræða sýn sína á fráveitumál og baráttumál hvað varðar umhverfismál á þessu sviði. Það væri því fróðlegt að fá viðbrögð hennar svo að hún þurfi ekki eingöngu að ræða fjármögnun hér, heldur einmitt sýn sína á þetta umhverfismál.

Í framhaldi af því er rétt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist breyta reglum, t.d. reglugerð nr. 798, og skýra út fyrir sveitarstjórnarmönnum sem velkjast í vafa um hvernig túlka beri að regluna. Ég veit að það eru margir sem bíða eftir að fá skýr svör hjá hæstv. ráðherra.

Loks væri einnig mjög fróðlegt ef hæstv. umhverfisráðherra greindi okkur frá því hvort hún sjái sér fært að stuðla að því að gerð verði breyting þannig að undirbúningsrannsóknir, sérstaklega á landsbyggðinni, fái styrk úr þessum sjóði þannig að hægt verði að nýta það fjármagn sem verja á til fráveituframkvæmda vel og þær byggist á rannsóknum, byggist á einhverjum athugunum. Það væri mjög þarft að breyta reglum einmitt á þann veg.