131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[17:40]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það er lítið við því að gera að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skuli átta sig á málinu nú þegar það er komið til 3. umr. á þinginu. Ég kannast ekki við að hann hafi áður sýnt málinu áhuga eða tekið þátt í umræðum um málið.

Það fór lítið fyrir því að hv. þingmaður fjallaði beint um þau atriði sem færð eru fram til skýringar á málinu í greinargerð með því. Þar er sú skýring færð fram að málinu sé ætlað að jafna vissan aðstöðumun sem skapast hefur við það að þjónustumiðstöðvar í hinum dreifðari byggðum geta boðið fram matvöru í skjóli þess að þar fer fram annars konar starfsemi sem hefur leyfi til að starfa þá tilteknu daga sem frumvarpið fjallar um. Við þeim ójöfnuði er frumvarpinu ætlað að bregðast og frumvarpið byggir á því að mikilvægt sé að tryggja framboð á matvöru þá daga sem um ræðir fyrir ferðamenn.

Frumvarpið lýsir ákveðnum vanda sem upp er kominn, ákveðnum aðstöðumun sem upp er kominn meðal þeirra sem bjóða fram þjónustuna og hins vegar aðstöðumuninum þegar kemur að því að sækja þjónustuna eftir því hvort menn sækja hana á landsbyggðinni eða í þéttbýliskjörnunum. Það er ekki hægt að taka þátt í umræðu um málið án þess að víkja að því atriði sem frumvarpið snýst um.

Í tilefni af athugasemdum um það hvort nefndin hafi ekki viljað hlusta á þær röksemdir sem verslunarmenn komu á framfæri, þá fundaði nefndin einmitt með þeim og hlustaði á þau sjónarmið en taldi þau ekki eiga að ráða úrslitum. (Forseti hringir.)