131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Búvöruframleiðslan og stuðningur við byggð í sveitum.

240. mál
[18:11]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þessari tillögu til þingsályktunar um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum. Flutningsmenn ásamt mér eru aðrir hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og Bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við mótun nýs grundvallar fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.“

Hér er um að ræða endurflutt þingmál frá fyrra þingi sem ekki varð þá útrætt og tillagan er endurflutt óbreytt enda aðstæður í aðalatriðum hinar sömu. Greinargerðin hefur þó verið uppfærð í nokkrum tilvikum og aukið við þáttum, t.d. kafla um málefni bújarða og stóraukin uppkaup efnamanna og fjárfestingarfélaga á jörðum. Þá ber þess að geta að í lok síðasta þings var þingsályktunartillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum samþykkt og er því orðin að opinberri stefnu Alþingis sem stjórnvöldum ber að framfylgja og getur vissulega skipt máli í þessu sambandi þar sem um er að ræða rekstur í smáum einingum vítt og breitt um landið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að íslenskur landbúnaður hefur glímt við verulega erfiðleika, a.m.k. margar greinar hans, og sama gildir um byggðaþróunina í strjálbýli landsins sem í það heila tekið hefur verið afar óhagstæð undanfarin ár og jafnvel áratugi.

Á umliðnum missirum hefur hefur borið einna hæst vanda sauðfjárræktarinnar en fleiri greinar eins og loðdýraræktin hafa átt í miklum erfiðleikum þó þar hafi að vísu nú tekist samkomulag um tilteknar aðgerðir til stuðnings greininni. Landbúnaðurinn er, bæði sauðfjárrækt og önnur kjötframleiðsla, að jafna sig og langt í frá búinn að ná jafnvægi á nýjan leik eftir það upplausnarástand sem ríkti á kjötmarkaði um missira skeið. Ýmsir bændur, t.d. framleiðendur nautakjöts, fóru ákaflega illa út úr því ástandi. Víða eru því bæði bændur og afurðasölufyrirtæki þeirra enn að glíma við og vinna úr þeim erfiðleikum sem fylgdu stjórnlausri framleiðsluaukningu, verðstríði og undirboðum á kjötmarkaði á síðustu missirum.

Ýmis teikn eru þó á lofti um að betur horfi, a.m.k. tímabundið, t.d. í sauðfjárræktinni, og er vissulega gleðilegt að sala hefur glæðst á nýjan leik og að horfur eru betri. Eins má segja að útflutningur gangi að mörgu leyti allvel þar sem verið er að reyna hann, að því slepptu þó að sjálfsögðu að óhagstæð gengisþróun íslensku krónunnar er útflutningi þeirrar greinar ákaflega erfið eins og öðrum. Það er t.d. ljóst að þrátt fyrir verulega hækkun afurðaverðs á sumum mörkuðum þar sem selt er í dollar er skilaverð heim síst að hækka í krónum talið, einfaldlega vegna hinnar miklu gengishækkunar krónunnar og reyndar lækkunar dollars á alþjóðamarkaði.

Að sjálfsögðu hefur ýmislegt jákvætt verið að gerast í atvinnu- og byggðamálum til sveita sem betur fer. Þar má nefna uppbyggingu í ferðaþjónustu og ýmiss konar afþreyingu og talsverður kraftur hefur verið í uppbyggingu þjónustuiðnaðar, handverks og framleiðslu. Einnig má nefna aukna kornrækt, hrossarækt, skógrækt, bleikjueldi og aukinn hlut sveitanna í ýmiss konar umönnunarstörfum svo eitthvað sé nefnt. Það er því síður en svo ástæða til að ætla að ekki sé úr heilmiklum möguleikum að spila. En því miður er það staðreynd að hin nýju störf af ýmsum toga sem hafa sannarlega verið að skapast í strjálbýlinu og í sveitum landsins hafa tæplega náð að vega upp á móti þeim mikla samdrætti sem orðið hefur í hinni hefðbundnu framleiðslu og í hinum hefðbundnu greinum landbúnaðarins. Áfram hefur því saxast á byggðina og fólki fækkað og mega menn mjög illa við því víðast hvar. Félagslega er ástandið einfaldlega þannig að ef um mikið frekari fólksfækkun verður að ræða horfir víða til byggðahruns í heilum héruðum og landshlutum innan ekki langs tíma.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum haft málefni landbúnaðarins til umfjöllunar að undanförnu með ýmsum hætti. Við höfum flutt fjölmörg þingmál sem tengjast t.d. stuðningi við lífrænan landbúnað og ýmsar aðgerðir til að styðja við búsetuna í hinum dreifðu byggðum. Við höfum verið og erum stuðningsmenn fjölskyldueiningar í rekstri og vörum við tilhneigingu til óhóflegrar samþjöppunar og verksmiðjubúskapar, bæði af umhverfisástæðum og félagslegum ástæðum. Sérstaklega höfum við beitt okkur fyrir því og unnið að því að móta stefnu um svonefndan búsetutengdan grunnstuðning við landbúnaðinn og búsetu í sveitum. Fyrstu hugmyndir í þá veru komu fram í umræðum og ályktunum á vettvangi kjördæmisráða flokksins á landsbyggðinni fyrir allmörgum árum og síðan hafa þær hugmyndir mótast og verið festar í sessi í ályktunum landsfunda okkar og í síðustu kosningastefnuskrá flokksins. Um nánari útfærslu þeirra hugmynda vísast í ýmis fylgiskjöl með tillögunni.

Ég vil gera sérstaklega að umræðuefni þá miklu holskeflu uppkaupa eignamanna og fjárfestingarfélaga á bújörðum og kannski ekki síður á framleiðslurétti í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu sem nú stendur yfir. Við flutningsmenn tillögunnar teljum að þar sé um afar varhugaverða þróun að ræða ef jarðnæði almennt í sveitum landsins fer úr eigu þeirra sem búreksturinn annast og nýta landið og bændur sitja unnvörpum eftir sem leiguliðar. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur haft á þessu aðrar skoðanir og jafnvel gengið svo langt úr þessum ræðustóli að fagna því, ef eitthvað er, hversu mikill áhugi efnamanna og fjárfestingarfélaga sé á bújörðum. Hæstv. landbúnaðarráðherra virðist alls ekki hafa sömu áhyggjur og við þingmenn margir hverjir og bændur upp til hópa af því sem er að gerast í búsetumynstrinu og þróuninni í landbúnaði og búsetu í sveitum. Maður veltir því stundum fyrir sér á hvaða spori hæstv. landbúnaðarráðherra sé yfir höfuð í þeim efnum. Er hann orðinn eindreginn stuðningsmaður þess að landbúnaðurinn færist saman í örfáar verksmiðjueiningar, jafnvel reknar af stóreignamönnum með búsetu í þéttbýlinu og að starfsfólkið í þeim einingum verði leiguliðar og hin klassíska mynd í þeim efnum líði undir lok?

Í löndunum í kringum okkur gætir verulegrar tilhneigingar til að reyna að leita leiða til að vinda ofan af þróuninni til samþjöppunar í framleiðslueiningum sem þar var orðin. Í hinu mikla landbúnaðarlandi Danmörku hafa menn fyrir lifandi löngu áttað sig á því að það er í allra þágu að setja slíku skorður, að tryggja áfram dreifingu búskaparins um landið, m.a. og ekki síst af umhverfisástæðum en einnig af félagslegum ástæðum og þess vegna mætti segja menningarlegum. Þar koma hollustu- og heilbrigðissjónarmið einnig mjög til sögu og þannig mætti áfram telja.

Danir væru ekki að gera þetta ef þeir teldu að stefnan væri ósamrýmanleg því að reka samkeppnisfæran og arðbæran landbúnað, að sjálfsögðu ekki. En einhvers staðar verða menn að draga mörkin og láta þessa hluti mætast. Það er gert með margvíslegum hætti, t.d. er í danskri búnaðarlöggjöf gerð krafa um að þeir sem kaupa bújarðir sitji þær. Því eru settar skorður að menn geti safnað eignarhaldinu á mörgum jörðum saman. Það er gert að kröfu í dönskum reglum að þeir sem stunda t.d. svína- og kjúklingarækt, sem helsta tilhneigingu hefur til að færast saman í stórar verksmiðjueiningar, hafi yfir ákveðnu jarðnæði að ráða, ákveðnum fermetrum lands á móti hverri gyltu í svínarækt o.s.frv. til að verjast óhóflegri samþjöppun, óhóflegu álagi á umhverfið, óhóflegri mengun eða auðgun jarðvegs vegna afsetningu áburðar o.s.frv.

Þess verður ekkert vart á Íslandi að núverandi yfirvöld landbúnaðarmála séu með mikla meðvitund í þessum efnum. Maður spyr sig æ oftar að því: Hvernig er ástandið í þessu blessaða landbúnaðarráðuneyti okkar og jafnvel í bændakerfinu ef menn hafa enga viðleitni uppi til að móta þar einhverjar áherslur? Þróunin einkennist sérstaklega af því að framleiðslurétturinn, rétturinn til að fá stuðning ríkisvaldsins við hina hefðbundnu búvöruframleiðslu, mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, hefur farið upp úr öllu valdi. Verðið á mjólkurkvóta er orðið þannig að það er ein helsta skýring á því að sögn að nú er okkur boðað að hefja eigi mjólkurframleiðslu og byggja upp mjólkurbú eða ostagerð utan hins hefðbundna stýrða framleiðslukerfis og án nokkurs stuðnings frá ríkinu. Hver eru meginrökin fyrir því að þetta sé hægt, að þetta gangi upp? Jú, þau eru að kvótaverðið sé orðið svo óhóflegt að sem valkostur við að hefja slíka starfsemi með því að kaupa upp framleiðslurétt komi jafnvel betur út að gera það án slíks stuðnings. Einhverjar aðvörunarbjöllur ættu að hringja í landbúnaðarkerfinu þegar svo er komið.

Hvað er verið að selja þegar stóreignamenn kaupa bújarðir með framleiðslurétti í mjólkurbúskap eða sauðfjárrækt? Jú, það er verið að selja rétt til þess að fá ávísanir frá ríkinu. Rétturinn til að fá greiðslur úr ríkissjóði gengur kaupum og sölum, greiðslur sem eru á grundvelli tímabundins samnings milli ríkisvaldsins og Bændasamtakanna. Út í þvílík ósköp eru menn komnir í þessum efnum. Ég, sem nokkur ábyrgðaraðili að málinu frá fyrri tíð, verð að játa að ég hafði ekki og hef ekki haft hugarflug til þess að þeir hlutir gætu farið að gerast sem hafa verið að gerast í kerfinu að undanförnu.

Þetta er stórkostlega varhugavert í öllu tilliti og ekki síst er þetta að mínu mati stórhættulegt allri endurnýjun í greininni og möguleikum til nýliðunar og kynslóðaskipta í landbúnaði. Búsetutengdur grunnstuðningur sem er þess eðlis að hann skilar sér beint til þeirra sem sitja og nýta jarðirnar en er ekki framseljanlegur og hefur því ekki verðgildi nema búið sé á viðkomandi jörð er þess eðlis að utanaðkomandi aðili getur ekki fénýtt sér hann. Það þýðir ekki að kaupa bújörð ef skilyrði hins búsetutengda grunnstuðnings er búskapur á jörðinni og búseta á henni. Þá verður hann ekki fénýttur með öðrum hætti og þaðan af síður fluttur til eða notaður til að greiða niður jarðakaup. En þegar menn kaupa framleiðslukvóta dýrum dómum er það að hluta til ætlunin að nota styrkina til að afskrifa fjárfestinguna og eignast þannig landið kannski án þess að greiða mikið fyrir það þegar upp er staðið. Það var aldrei tilgangurinn og er ekki tilgangurinn með þeim stuðningi sem er grundvallaður í samningunum milli ríkisvaldsins og Bændasamtakanna, heldur alveg þvert á móti og hið gagnstæða.

Tilgangurinn er sá að gera framleiðsluvöruna hagkvæmari og ódýrari fyrir neytendur og hlúa um leið að þeirri atvinnugrein, þeirri starfsemi og búsetunni í sveitunum sem grundvallast á henni. Menn eru því algerlega komnir í mótsögn við hinn upphaflega tilgang fyrirkomulagsins þegar hlutirnir eru farnir að þróast með þeim hætti sem raun ber vitni. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni. (Forseti hringir.)

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. landbúnaðarnefndar.