131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Svar við fyrirspurn.

[12:01]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að gera athugasemd við prentað svar hæstv. menntamálaráðherra til mín við fyrirspurn sem ég lagði fyrir hana um listaverkakaup Listasafns Íslands. Þetta er einungis tæknileg athugasemd en ég spyr í fyrirspurninni, sem birtist á þskj. 998 með svarinu, hversu mikið ráðstöfunarfé Listasafn Íslands hafi haft til listaverkakaupa árlega sl. 15 ár og hvernig árleg fjárhæð hafi þróast með tilliti til verðlags. Þegar svarið er skoðað kemur í ljós að útreikningurinn er eitthvað brogaður og ómögulegt að finna þær upplýsingar sem beðið er um í þeim útreikningi sem birtur er. Ég vil því einungis óska eftir því við hæstv. forseta að athugasemd minni verði komið á framfæri þannig að reikna megi þetta upp á nýjan leik svo ljóst verði á hvern hátt fjárveiting til Listasafns Íslands til listaverkakaupa hefur þróast sl. 15 ár.

(Forseti (BÁ): Þeirri athugasemd verður komið á framfæri.)