131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Hlutur húsnæðiskostnaðar í neysluverðsvísitölu.

527. mál
[12:13]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Þegar litið er til allra þeirra þátta sem skipta máli í þessu samhengi er ljóst að þrátt fyrir hækkun vísitölunnar hefur greiðslubyrði lána vegna húsnæðismála verið að léttast. Vextir hafa lækkað, lánstími hefur lengst og þar af leiðandi hefur greiðslubyrðin verið að léttast. Auðvitað hefur þetta bætt hag almennings í landinu. Það liggur líka fyrir að hækkandi fasteignaverð eykur eignir Íslendinga þannig að þeir eiga meira í húsnæði sínu en áður var. Líta þarf til allra þessa þátta þegar litið er til hags fólks í þessu samhengi.

Út af fyrirspurn hv. þm. Helga Hjörvars liggur fyrir að menn hafa á undanförnum árum verið að draga úr vægi verðtryggingarinnar. Verðtrygging hefur minnkað verulega á styttri lánum en ekki á langtímalánum. Það er stefna flokks míns og ég tel að það sé stefna allra flokka hér á landi að fjármagnsmarkaður á Íslandi geti verið með svipuðum hætti og gengur og gerist í löndunum í kringum okkur og það er að mínu mati mikilvægt og nauðsynlegt að enn frekar dragi úr gildi verðtryggingarinnar eins og er víðast hvar í kringum okkur. Hins vegar er þetta spurning um traust á íslensku efnahagslífi, traust á fjármagnsmarkaði. Við höfum hingað til varlega stigið skref í þessa átt. Ég tel að við eigum að halda því áfram og það muni fyrst og fremst ráðast af því trausti sem íslenski fjármálamarkaðurinn og íslenska efnahagslífið býr við og sem betur fer hefur það farið mjög vaxandi, sérstaklega í tíð núverandi ríkisstjórnar.