131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

457. mál
[12:15]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir fjórum árum samþykkti Alþingi tillögu sem fulltrúar allra flokka á Alþingi stóðu að, um að gerð yrði heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga með það að markmiði að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins. Á grundvelli stefnumótunar í þessum málum var ríkisstjórninni falið að gera 5 ára framkvæmdaáætlun í samráði við opinberar stofnanir og félagasamtök og leggja hana fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi 2002.

Í október 2003 lofaði Davíð Oddsson, ári eftir að framkvæmdaáætlunina átti að leggja fyrir þingið, að framkvæmdaáætlunin yrði lögð fyrir Alþingi til staðfestingar, umræðu og afgreiðslu á því þingi, á árinu 2003. Við það var ekki staðið og málið saltað í tvö ár til viðbótar. Fyrst nú í janúar er dustað rykið af þessu verkefni, eftir að ég hafði rekið á eftir því með fyrirspurn til forsætisráðherra fyrir bráðum þremur mánuðum. Þessari fyrirspurn er nú fyrst svarað. Það er full ástæða til að gagnrýna bæði fyrrverandi og núverandi forsætisráðherra fyrir það hvernig hér hefur verið staðið að málum og stöðu þessa verkefnis, nú nærri þremur árum eftir að forsætisráðherra átti að vera búinn að leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun í málinu.

Um þverbak keyrði í vinnubrögðum forsætisráðuneytisins í þessu máli í gær þegar enn var neitað að svara þessari fyrirspurn en þess í stað vísað til þess að skýrsla um málið með að mestu 2–3 ára gömlum upplýsingum og tillögum og sumar hverjar úr sér gengnar hafi verið sett í hólf þingmanna. Skilaboðin voru þau að þessi skýrsla yrði síðan send nýskipaðri fjölskyldunefnd forsætisráðherra til umfjöllunar. Eftir gagnrýni mína á þá málsmeðferð var fyrirspurn mín frá 20. janúar í þessu máli loks sett á dagskrá í morgun. Ég óska eftir því, herra forseti, að sú skýrsla sem lögð var í hólf þingmanna í gær verði tekin til efnislegrar umfjöllunar á Alþingi og að forsætisráðherra gefi Alþingi skýrslu um efni hennar því að hér er um aðkallandi mál að ræða sem sum hver þola ekki bið.

Í þessari skýrslu sem fyrir liggur kemur fram að hér á landi er að finna mikla brotalöm í málefnum barna. Gagnrýni er mikil á óskilvirkni kerfisins, að alla heildarsýn og samhengi vanti og afar brýnt sé orðið að skoða verkaskiptingu milli stofnana og ráðuneyta og skilgreina hvar ábyrgð liggi, auk þess sem miklum agnúum er lýst á bóta- og velferðarkerfinu varðandi hag barna. Í skýrslunni er sérstaklega nefnt að úrbóta sé þörf í málefnum fátækra barna, nýbúa, barna með geðraskanir og barna og ungmenna í vímuefnavanda. Þarna kemur líka fram að kynferðisleg misnotkun barna sé stórum útbreiddari en álitið hefur verið hingað til. Ég spyr ráðherra hvort hann fallist á ósk mína um að skýrslan verði tekin til efnislegrar umfjöllunar á Alþingi á næstu dögum og að forsætisráðherra leggi fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fimm ára þar sem skilgreint verði og forgangsraðað hvernig ráðast eigi í brýn úrlausnarefni í málefnum barna og ungmenna. Önnur vinnubrögð í þessu máli eru fullkomlega óásættanleg, og óásættanlegt fyrir þingið sem hefur kallað eftir allt annarri málsmeðferð að það taki fjögur ár að afgreiða þetta mál og að loks þegar það liggur fyrir eigi að vísa því í aðra nefnd.