131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

457. mál
[12:25]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þau orð sem koma fram í skýrslunni sem við hér ræðum og hv. síðasti ræðumaður gat um. Nefndir eða skýrslur eru ofnotað úrræði í málefnum barna. Hér verður að bretta upp ermar og hefja framkvæmdir. Þess vegna tek ég heils hugar undir kröfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem leggur hér til að þessi skýrsla fái sjálfstæða umræðu í þinginu, það er lífsnauðsynlegt, og síðan að búin verði til framkvæmdaáætlun til a.m.k. næstu fimm ára. Við vitum af þeim skýrslum og rannsóknum sem fyrir liggja hvar skórinn kreppir fyrst og fremst. Við þurfum að grípa til úrræða og það er forkastanlegt að málefni barna og unglinga skuli ekki fá meiri forgang, meiri orku frá okkur hér en raun ber vitni með því að þeim er slefað stöðugt inn í fleiri nefndir og fleiri skýrslur.

Hér verður að grípa til úrræða og ég tek undir kröfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.