131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[12:31]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og hæstv. forseti hefur væntanlega tekið eftir óskaði ég eftir því að hæstv. forsætisráðherra mundi svara þeirri ósk minni að þessi skýrsla sem lögð var í hólf þingmanna í gær yrði tekin til formlegrar og efnislegrar umræðu. Ég hef með formlegum hætti og geri það aftur hér og nú óskað eftir því við forseta að skýrslan verði tekin til efnislegrar umfjöllunar og tel það miður að forsætisráðherra hafi ekki séð ástæðu til að svara því í umræðunni að hann fallist á að skýrslan verði tekin til umræðu. Ég verð þó að líta svo á að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki hafnað því og ég ítreka þá ósk mína að það verði gert á næstu dögum.

Ég segi það líka við hæstv. forseta að það er ekki viðunandi fyrir okkur þingmenn að hæstv. ráðherrar hunsi vilja Alþingis sem fram kemur í tillögum sem Alþingi hefur samþykkt með öllum greiddum atkvæðum þingmanna um að lögð verði fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fimm ára í þeim málefnum sem við ræddum hér. Þess í stað fer forsætisráðherra allt aðra leið og vísar málinu á nýjan leik í nefnd. Þetta eru óásættanleg vinnubrögð af hálfu hæstv. forsætisráðherra.