131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Leigulóðaréttindi sumarhúsaeigenda.

645. mál
[12:50]

Lára Stefánsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður hafi tekið þetta mál upp. Réttindi sumarbústaðaeigenda hafa, eins og hæstv. ráðherra sagði rétti áðan, verið dálítið fyrir borð borin. Fólk hefur verið að byggja upp í landinu bæði gróður og umhverfi, rækta landið og byggja hús en réttindi þess hafa oft verið fyrir borð borin í því samhengi. Sérstaklega, eins og hv. þingmaður tók fram, þegar kemur að rétti þess að sitja á þeirri jörð eða landi sem það hefur reist bústað. Ég fagna þessu og hvet ráðherra eindregið til að skoða réttarstöðu sumarbústaðaeigenda og gera átak í málefnum þeirra þannig að uppbygging og starfsemi sem tengist réttindum fólksins til þjónustu á sumarbústaðalandi sé í samræmi við það sem eðlilegt má telja.