131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Leigulóðaréttindi sumarhúsaeigenda.

645. mál
[12:51]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan er ekki um neinn smáhóp að ræða en verulegu máli skiptir að réttarstaða hans sé nokkuð ljós og örugg.

Yfirleitt eru lóðaleigusamningar vegna sumarhúsa gerðir til 20–25 ára, þeir voru áður til lengri tíma en ég man ekki betur en að á sínum tíma hafi þáverandi félagsmálaráðherra, þ.e. Jóhanna Sigurðardóttir, komið fram með ákvæði um stærð sumarhúsa o.s.frv. Ég held ég sé að fara með rétt mál, að þar hafi félagsmálaráðuneytið blandað sér inn í málið.

Í annan stað veit ég ekki betur en ákvæði um 20–25 ára lóðaleigusamninga sé samkvæmt reglum sem annaðhvort koma frá félagsmálaráðuneyti eða frá sveitarfélögunum sjálfum. Það er ákaflega takmarkandi í ljósi þeirra krafna sem nú eru gerðar til sumarbústaðaeigenda varðandi sorphirðugjald og annað, t.d. holræsagjald o.fl. Meðan sumarbústaðaeigendur búa að þessum jörðum bera þeir miklar og margar skyldur sem þeir sinna og því er mjög óeðlilegt að minni kvöð sé á landeigendum, eins og ég kom inn á áðan, t.d. ef eigendaskipti verða á jörðinni, að þá sé nánast hægt að svipta menn þessum rétti. Menn hafa kannski keypt jörðina of dýru verði þannig að endurskoða þarf leigusamninginn til að ná upp í þann kostnað.

Við skulum ekki gleyma því mikla og góða hlutverki sem sumarbústaðaeigendur þjóna við landgræðslu, við uppgræðslu þessa lands. Mér finnst full ástæða til þess og vonast til að hæstv. félagsmálaráðherra láti skoða málið og taki á því þannig að réttarstaða þeirra aðila og hagur batni, m.a. í ljósi þess hve margir njóta sveitasælunnar.