131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:00]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er tekið til umræðu mikilvægt mál sem snertir mjög byggðamál í landinu.

Við í Frjálslynda flokknum höfum eins og kunnugt er lagt mikla áherslu á augljóst samhengi byggðaröskunar og kvótakerfisins, sem hefur skilað helmingi minni þorskafla eftir upptöku þess en fyrir, og þess gagnsleysis sem í því felst. Einnig höfum við bent á það að búið er að svipta jarðir landsins útræðisréttinum.

Í þessari umræðu ætlum við að beina sjónum okkar að öðrum þáttum, að því hvort vöxtur hins opinbera hafi átt þátt í hinni gríðarlegu byggðaröskun sem hefur átt sér stað í stjórnartíð stjórnarflokkanna.

Í nýlegri skýrslu Vífils Karlssonar, dósents í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, er fjallað um gríðarlega mismunun á því hvar hið opinbera aflar tekna annars vegar og hins vegar hvar hið opinbera ver tekjunum. Í skýrslunni kemur fram að á árinu 2002 hafi um 27% af tekjuskatti komið frá öðrum landsvæðum en skattumdæmum Reykjavíkur og Reykjaness og enn fremur færir skýrsluhöfundur veigamikil rök fyrir því út frá útreikningum tryggingagjalds að einungis 15% þess fjár sem var aflað á þessum svæðum sé aftur varið þar. Einungis hluta þess skattfjár sem er aflað á landsbyggðinni er varið á landsbyggðinni. Með öðrum orðum gefur skýrslan það til kynna að það sé beint fjárstreymi af landsbyggðinni í formi skatta til höfuðborgarsvæðisins.

Þessi umræða er mjög þörf, sérstaklega í ljósi þess að margir virðast lifa í þeirri trú að sí og æ sé verið að sólunda skattfé höfuðborgarbúa út á land. Nú í hádeginu var t.d. verið að kynna skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem fram kemur að helmingur tekna bænda komi af opinberu fé. Vissulega er orðið tímabært að endurskoða hvernig framleiðslutengt styrkjakerfi landbúnaðarins er en það er ekki sanngjarnt að láta að því liggja í umræðunni að allt það fé komi af höfuðborgarsvæðinu eða þá að allt það fé sem er notað til rafhitunar á húsnæði komi af höfuðborgarsvæðinu. Hið sama má segja um umræðu um fjárframlög til Byggðastofnunar. Ætíð er látið liggja að því að peningar streymi af höfuðborgarsvæðinu og út á landsbyggðina. Raunin er önnur. Í það minnsta gefur þessi skýrsla tilefni til þess að álykta að fjársteymið sé í hina áttina.

Í skýrslunni er fjallað um þann gríðarlega vöxt sem hefur orðið á umfangi hins opinbera en hlutur þess nálgast að vera helmingur af vergri þjóðarframleiðslu. Jafnframt er fjallað um þann þátt sem mögulegan orsakavald byggðaröskunar, þ.e. að umsvif hins opinbera sem eru að mestu á höfuðborgarsvæðinu og ofvöxturinn sem hefur orðið í bákninu í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, að það er orðið allt að helmingur af vergri þjóðarframleiðslu, valdi byggðaröskuninni.

Ef farið er yfir árangur núverandi stjórnvalda í byggðamálum er augljóst að hann er enginn. Í raun hefur verið rekin byggðaeyðingarstefna. Það er búið að koma á kvótum og höftum á atvinnuvegi landsbyggðarinnar og síðan er búið að blása ríkisbáknið út. Allt þetta leggst á eitt um að láta landsbyggðinni blæða.

Ef stjórnvöld ætla að ná raunverulegum árangri í byggðamálum og fjalla um málaflokkinn með vitrænum hætti verða þau að hafa einhver viðmið og mælistærðir. Ótrúlegur fjöldi skýrslna hefur verið framleiddur þar sem ekkert mat er lagt á fækkun eða fjölgun starfa á landsbyggðinni og heldur ekki hvaða störfum fækkar og hverjum fjölgar.

Í lokin vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. forsætisráðherra:

1. Mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að frekari athugun fari fram á því hvort stöðugur vöxtur hins opinbera hafi verið einn veigamikill orsakavaldur í þeirri byggðaröskun sem hefur orðið í valdatíð stjórnarflokkanna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks?

2. Mun ríkisstjórn Íslands beita sér fyrir því að fylgst verði með því hvar á landinu vöxtur hins opinbera verður og beiti sér fyrir því að landsbyggðin fái nú sinn skerf af umsvifum hins opinbera?