131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:13]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta er út af fyrir sig athyglisverð skýrsla sem hér er til umræðu en þegar ég er búinn að fara aðeins yfir stærðfræðiformúlurnar hef ég, eins og hæstv. forsætisráðherra, áhyggjur af því að grunnupplýsingarnar séu kannski ekki alveg þess eðlis að hægt sé að taka þær vísbendingar sem þarna eru sem heilagan sannleik. Þær þarf að skoða betur.

Ég verð hins vegar að taka undir með hv. málshefjanda að stöðugur vöxtur hins opinbera er áhyggjuefni. Engum þarf þó að koma á óvart að hlutfall opinberra starfa sé hærra á höfuðborgarsvæðinu. Eins og kom þó fram hjá hæstv. forsætisráðherra hefur þetta verið að breytast til batnaðar og má auðvitað enn breytast. Að því er unnið. Við í sjávarútvegsráðuneytinu höfum unnið markvisst að því á undaförnum árum, bæði með breytingum á starfsemi stofnana okkar og eins með því að taka upp ný verkefni hjá útibúum stofnananna úti á landi. Þannig hefur Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verið breytt á þann veg að þjónusturannsóknir hafa verið einkavæddar að miklu leyti og störfin orðið eftir á þeim stöðum úti á landi þar sem þau fóru fram áður. Til viðbótar hefur útibúunum verið breytt í rannsóknarútibú og vænti ég mikils af þeirri breytingu í framtíðinni. Áhrifin eru aukin störf á þeim stöðum sem þar er um að ræða.

Við höfum tekið upp ný störf á Akureyri, bæði hjá RF og í Verðlagsstofu. Það síðasta eru svo ný störf hjá Veiðieftirliti Fiskistofu sem koma munu til í Vestmannaeyjum í bakreikningum á næsta ári og flutningur Veiðieftirlitsins út á land í útibú, í Vestmannaeyjum, á Höfn, í Stykkishólmi, Grindavík og viðbót á Akureyri. Af þessu má sjá að ríkisstjórnin vinnur mjög skilvíslega að þessu máli og ég geri ráð fyrir því að tölurnar í næstu framtíð verði áfram jákvæðar.