131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:15]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að full þörf sé á þessari umræðu og ekki bara umræðu, heldur vönduðum rannsóknum til að undirbyggja betur vitræna og upplýsta umfjöllun um þessi mál. Ég þekki ekki þær tölur sem hæstv. forsætisráðherra vitnaði til um að búskapurinn hefði eitthvað lagast eða þróast landsbyggðinni í hag hvað varðar opinber störf þar annars vegar samanborið við höfuðborgarsvæðið hins vegar. Ég man þó eftir næstsíðustu — eða var það kannski þarnæstsíðasta? — byggðaáætlun inni í hverri voru háleit markmið um að fjölga störfum á landsbyggðinni sérstaklega og umfram það sem gerðist hér á höfuðborgarsvæðinu. Þegar það tímabil var gert upp var niðurstaðan sú að öll fjölgun opinberra starfa í landinu var á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðin hélt sjó með óbreyttan fjölda. Svo mikið man ég. Hvort þetta var næstsíðasta eða þarnæstsíðasta byggðaáætlunartímabil læt ég liggja milli hluta.

Tvennt held ég að skipti hér miklu máli, annars vegar hve mikið er gert til að jafna aðstæður og reyna að tryggja sæmilegt jafnvægi í byggðaþróun. Staðreyndin er sú að þegar Ísland er skoðað hefur byggðaröskun á Íslandi orðið meiri en í nokkru öðru vestur-evrópsku landi fyrir utan stríðstíma. Það er staðreynd. En aðgerðir opinberra yfirvalda til jöfnunar í þessum efnum eru mun minni að umfangi en í mörgum nágrannalöndum. Noregur, Skotland, norðurhéruð Svíþjóðar og Finnlands, á öllum þessum svæðum er mun meira gert til að vega upp aðstöðumuninn og jafna skilyrðin.

Svo er það spurningin: Hvernig nýtist það fé sem menn leggja þarna af mörkum? Miðsækni hinnar opinberu þjónustu er staðreynd, við þekkjum hana, og það er full ástæða til að fara í þetta uppgjör og skoða það, líka innan skattkerfisins. Ég nefni til sögunnar einn skatt sem landsbyggðin ber af mun meiri þunga en höfuðborgarsvæðið, virðisaukaskattinn sem leggst ofan á endanlegt vöruverð (Forseti hringir.) að meðtöldum flutningskostnaði, hægari vöruveltu og öllu því á landsbyggðinni. (Forseti hringir.) Það er víða sem svona uppgjör mætti fara fram.