131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:20]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft við mjög athyglisverðu máli. Sú skýrsla sem hefur verið vitnað til í umræðunni leiðir enn og aftur í ljós að opinber störf í ríkisrekstrinum eru hlutfallslega miklu fleiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Það er því miður gömul saga og ný. Það þarf því að vinna áfram að því að rétta þennan hlut. Ríkisstjórnin hefur verið að vinna að því eins og hæstv. forsætisráðherra benti á áðan þó að vissulega mætti ganga betur á sumum sviðum í þeim efnum.

Ég fagna hér, hæstv. forseti, sérstaklega útspili hæstv. sjávarútvegsráðherra varðandi fjölgun starfa á vegum Fiskistofu á landsbyggðinni. Það vill einmitt svo til að starfsemi þeirrar stofnunar snýr að því að hafa eftirlit með atvinnugrein sem nær eingöngu er starfrækt á landsbyggðinni. Ég tel að hér sé um þjóðhagslega hagkvæman flutning að ræða.

Hæstv. forseti. Í ljósi þeirrar staðreyndar að opinber störf á vegum ríkisins eru hlutfallslega færri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, sem endurspeglast svo í þeirri umræðu sem við höfum hér uppi, hvernig er þá hægt að sætta sig við það að undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar, sjávarútvegurinn, sé sérstaklega skattlögð umfram aðrar atvinnugreinar með hinu svokallaða veiðigjaldi án þess að þeir fjármunir skili sér aftur til sjávarbyggðanna í formi uppbyggingar atvinnulífs og nýsköpunar?

Það er algjört grundvallaratriði í þessari umræðu, og endurspeglast hér, að ríkisstjórnin verður að beita sér fyrir því að veiðigjaldið renni aftur til sjávarbyggðanna. Margar þær byggðir heyja nú ákveðna vörn og ég fagna því sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að veiðigjaldið sé m.a. ein leiðin til að efla þessar byggðir. Ég fagna því og fagna svari hæstv. forsætisráðherra í þessum efnum.