131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Misræmi á milli fjármögnunar og umsvifa hins opinbera eftir landsvæðum.

[13:22]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er kannski ráð áður en hv. þingmenn tala sig til meiri hita í þessu máli að átta sig á því að hér býr ein þjóð í einu landi, a.m.k. síðast þegar ég gáði.

Hér hefur verið tekin til umræðu ákveðin rannsókn tiltekins fræðimanns við Viðskiptaháskólann á Bifröst þar sem hann beitir sjónarhorni svæðishagfræði svokallaðrar á umsvif og umfang hins opinbera sl. 20–30 ár. Þetta eru vissulega mjög fróðlegar niðurstöður, ekki síst vegna þess að þær leiða auðvitað það í ljós sem allir vita sem með þessu hafa fylgst að hið opinbera hefur vaxið hratt og mikið hér á landi á undanförnum áratugum.

Ef menn vilja setja það í pólitískt samhengi skulu menn líka hugsa til þess hverjir hafa verið hér í ríkisstjórn meira og minna síðustu þrjá áratugina. Það er Framsóknarflokkurinn. Mér telst svo til að hann sé búinn að vera í ríkisstjórn nærri því allt mitt líf, frá 1971–1978, 1980–1991 og svo frá 1995 til dagsins í dag. Þetta eru á síðustu 35 árum tæplega þrír áratugir líklega og hæstv. forsætisráðherra er búinn að vera hér á þingi næstum allan þennan tíma. (Gripið fram í.) Það þarf kannski að setja þessa hluti í pólitískt samhengi byggðastefnunnar um það hvaða árangur hún hefur borið eða hvort hún hafi í raun verið til. Það hefur verið mikið um hana talað og mörgu lofað, en hefur hún í raun verið til?

Það er kannski sú spurning sem hæstv. forsætisráðherra ætti að nota þessa umræðu til að svara.