131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

660. mál
[13:34]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ef horft er til þeirra barna sem vísað er til greiningar í fyrsta sinn eru biðlistar og biðtímar sem hér segir: Alls eru 15 börn fædd á árunum 2002–2005 á biðlista eftir greiningu og íhlutun. Þessi börn hafa í dag beðið að meðaltali 99 daga, minnst 28 daga, mest 231 dag. Sjö þeirra hafa beðið meira en þrjá mánuði.

Alls er 91 barn fætt á árunum 1999–2001 á biðlista eftir greiningu. Þessi börn hafa að meðaltali beðið 199 daga, minnst 13 daga og mest 550. 63 þeirra hafa beðið í meira en fjóra mánuði.

Alls eru 113 börn fædd á árunum 1989–1998 á biðlista eftir greiningu. Þau hafa í dag beðið að meðaltali 350 daga, minnst sjö daga og mest 1.154. 82 þeirra hafa beðið í meira en sex mánuði.

Auk þess eru á biðlista 44 börn á grunnskólaaldri sem hafa áður verið skjólstæðingar stofnunarinnar en er nú vísað til endurathugunar vegna breyttra aðstæðna. Alls telur því biðlisti Greiningar- og ráðgjafarstöðvar 266 börn.

„Hefur tilvísunum til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins fjölgað á síðustu fimm árum? Ef svo er, hverjar eru taldar helstu ástæðurnar?“

Veruleg fjölgun hefur orðið á tilvísunum til stofnunarinnar undanfarin fimm ár en reyndar nær þessi aukning lengra aftur í tímann. Þannig var 99 börnum vísað til greiningar árið 1995, 205 árið 2000 og 302 á síðasta ári, þar af 258 sem var vísað til greiningar í fyrsta sinn. Hér er því um þreföldun að ræða á tilvísunum á þessum 10 árum. Á síðustu fimm árum er aukningin um 50%.

Þegar horft er til skýringa á þessari aukningu eru þær margþættar. Meginhluti aukningarinnar átti sér stað í tveimur þrepum. Þannig tvöfaldaðist fjöldi tilvísana á milli áranna 1995 og 2000 en síðan virtist vera nokkurt jafnvægi komið á næstu þrjú árin. Síðari hluti aukningarinnar varð að mestu á síðasta ári en heildarfjöldi tilvísana jókst úr 218 árið 2003 í 302 árið 2004. Tilvísanir fyrstu þrjá mánuði þessa árs benda til þess að tilsvarandi fjölda verði vísað í ár og á síðasta ári.

Orsakir aukningar á fyrra tímabilinu voru aðallega tvær. Annars vegar jukust mjög tilvísanir grunnskólabarna með alvarleg þroskafrávik og hreyfihamlanir en þeim hópi hafði verið sinnt í takmörkuðum mæli af hálfu stofnunarinnar fram að þeim tíma þrátt fyrir mikla og vaxandi þörf. Þá fól þáverandi félagsmálaráðherra stofnuninni árið 1997 að taka við auknum verkefnum á sviði einhverfu og skyldra raskana í kjölfar þess að barna- og unglingageðdeild vísaði þeim hópi frá þjónustu sinni. Þessir tveir hópar fatlaðra barna vógu þyngst í aukningunni á árunum 1995–2000.

Sú aukning sem fram kom á síðasta ári, hæstv. forseti, skýrist að hluta af fjölgun greindra tilvika á einhverfurófi. Þessi aukning er þekkt í alþjóðlegu samhengi án þess að orsakir séu að fullu kunnar en tíðni einhverfu og skyldra raskana hefur a.m.k. þrefaldast. Sem dæmi má nefna að börn með aspergerheilkenni sem voru vangreind áður fyrr og því ekki sinnt koma nú til greiningar og meðferðar mun fyrr en áður. 19 börnum sem höfðu þá frumgreiningu var vísað til Greiningarstöðvarinnar á síðasta ári.

Að öðru leyti er líklegt að vandaðri frumgreining barna á forskólaárum sem eru haldin þroskahömlun hafi leitt til fjölgunar í þeim aldurshópi. Þetta gæti skýrst m.a. af frekari stöðlum á sálfræðiprófum og betur skilgreindu greiningarferli með tilkomu greiningarteymismiðstöðvar heilsuverndar barna og ráðgjafarþjónustu leikskóla. Þessi þróun er í sjálfu sér mjög jákvæð þar sem börn grunuð um þroskahömlun greinast mun fyrr en ella og því meiri forsendur að bregðast við vanda eru að draga úr honum til framtíðar. Í öllum tilvikum liggur fyrir frumgreining sem staðfestir alvarleika þroskaröskunarinnar og hefur ekki orðið breyting á kröfum stofnunarinnar um vandaða frumgreiningu áður en til hennar kemur.

Í þriðja lagi var á árunum 2002–2003 gerð á vegum félagsmálaráðuneytisins ítarleg úttekt á stöðu Greiningarstöðvarinnar og þörfum fyrir þjónustu hennar. Niðurstaðan varð að til að ná jafnvægi í starfseminni þannig að biðtími yrði ásættanlegur þyrfti að koma til aukning sem næmi átta stöðugildum á fjögurra ára tímabili. Í samræmi við þetta varð aukning um eitt og hálft stöðugildi á síðasta ári og tvö stöðugildi á þessu ári, auk þess sem stofnunin fékk til umráða aukið húsnæði á síðasta ári.

Sú aukning sem varð á tilvísunum á síðasta ári og ég vitnaði til áðan, hæstv. forseti, kallar enn á endurskoðun á mannaflaþörf stofnunarinnar á næstu árum til að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Fyrstu áætlanir gera ráð fyrir að þörf sé á 4–5 stöðugildum umfram þau átta sem áður var getið, þ.e. alls þrjú á ári næstu þrjú ár.

Hvað fjórðu spurninguna varðar er ljóst að gera verður ráð fyrir einhverjum biðtíma eftir þjónustu Greiningarstöðvar. Frá upphafi starfseminnar hefur yngri börnum og börnum með alvarlegri fatlanir eða með afturför í þroska verið veittur forgangur að þjónustunni. Fyrir þann hóp, þ.e. yngri börn en þriggja ára og leikskólabörn með alvarlegar fatlanir, er það sameiginleg skoðun félagsmálaráðuneytis og stofnunarinnar að biðtími eigi að vera sem skemmstur, þ.e. að hámarki þrír mánuðir. Fyrir leikskólabörn með vægari fatlanir væri ásættanlegur biðtími 4–6 mánuðir og fyrir grunnskólabörn 6–8 mánuðir, enda væri hægt að hefjast handa um aðstoð við þau börn á heimaslóðum á grundvelli frumgreiningar.

Hæstv. forseti. Með þeirri aukningu í starfsemi stofnunarinnar sem rakin er hér á undan má ætla að ofangreindum markmiðum um ásættanlegan biðtíma verði náð á næsta ári fyrir yngsta aldurshópinn en á 3–4 árum fyrir börn á grunnskólaaldri.