131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Fræðsla um samkynhneigð.

500. mál
[13:50]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa fyrirspurn frá hv. fyrirspyrjendum því hún vekur um leið athygli á skýrslu nefndar sem Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skipaði árið 2003. Skýrslan var lögð fram á Alþingi en hún er að mínu mati um margt mjög athyglisverð og vel unnin eins og hv. fyrirspyrjandi Katrín Júlíusdóttir kom inn á, og vonandi á hún eftir að bæta stöðu samkynhneigðra á þeim fjölmörgu sviðum sem skýrslan kemur inn á.

Hvað varðar viðbrögð við tillögum um fræðslu um málefni samkynhneigðra í skólum get ég sagt að fjallað er um tillögurnar og þær hafðar til hliðsjónar í þeirri endurskoðun námskráa, bæði fyrir grunn- og framhaldsskóla, sem nú fer fram í tengslum við ákvörðun um breytta námsskipan til stúdentsprófs og aukna samfellu í skólastarfi. Rétt er að undirstrika að sú námskrárvinna er hafin og þar er tekið sérstakt tillit til þeirra tillagna sem koma fram í skýrslunni.

Í umræddri skýrslu kemur fram að í núgildandi námskrám grunn- og framhaldsskóla sem gefnar voru út 1999 hafi ekki verið tekið tillit til tillagna nefndar um málefni samkynhneigðra frá 1994 þar sem skýrt sé kveðið á um fræðslu um kynhneigð. Mér finnst rétt að benda á að í vinnu við námskrárnar 1999 var höfð hliðsjón af tillögum nefndarinnar frá 1994 en sérfræðingar sem þar komu að verki töldu að koma mætti á framfæri fræðslu um stöðu ólíkra þjóðfélagshópa, þar á meðal samkynhneigðra, þótt þeir væru ekki teknir sérstaklega út fyrir heldur fjallað um þá eins og alla aðra sem hafa sama rétt og sömu skyldur í þjóðfélaginu og eru að sjálfsögðu eðlilegur partur af samfélaginu. Þetta er m.a. gert með því að leggja áherslu á jafnrétti og önnur almenn gildi sem eiga jafnt við um samkynhneigða og aðra. Má t.d. nefna umburðarlyndi, virðingu fyrir skoðunum annarra og lífsgildum þeirra. Tillögur um slíka umfjöllun má einmitt finna í þeirri skýrslu sem verið er að vísa til hér.

Ég vil einnig árétta að í námskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla frá 1999 er innan margra námsgreina fjallað um samfélagsleg gildi, menningarlegan mun, kynlíf, kynhlutverk, tillitssemi og umburðarlyndi. Af námsgreinunum má nefna félagsfræði, náttúrufræði og ekki síst lífsleikni sem tekin var tekin upp sem námsgrein 1999. Markmið þessarar nýju námsgreinar er að efla almennan þroska nemenda og búa þá undir kröfur daglegs lífs. Mikil áhersla er lögð á að þjálfa nemendur í mannlegum samskiptum, auka víðsýni þeirra og vinna ekki síst gegn fordómum.

Í 10. kafla í þessari umræddu skýrslu er einnig fjallað um nauðsyn þess að breytingum á námskrá sé fylgt eftir með gerð námsefnis fyrir öll skólastig. Eftir að námskrárnar voru endurskoðaðar 1999 var einnig farið yfir námsefni og gerðar á því breytingar í þeim anda sem ég hef þegar lýst. Einnig verður þeirri endurskoðun á námskrám fyrir grunn- og framhaldsskólann sem nú fer fram fylgt eftir með endurskoðun á námsefninu sem slíku.

Eins og skýrsluhöfundar benda réttilega á er mikilvægt að fjallað sé réttilega um málefni allra þjóðfélagshópa í sem flestum námsgreinum. Í skýrslunni er einnig sagt að leggja þurfi áherslu á umfjöllun um líf og tilveru samkynhneigðra í grunnmenntun ýmissa stétta eins og kennara, hjúkrunarfræðinga, lækna, lögfræðinga,. guðfræðinga, sálfræðinga, námsráðgjafa, félagsráðgjafa, lögreglu og hvaðeina. Er sjálfsagt að vekja athygli þeirra sem skipuleggja menntun þessara stétta á skýrslunni og tillögunum sem þar koma fram en flestar þeirra sækja menntun sína á háskólastigi sem er rétt að draga líka inn í umræðuna.

Í tveimur síðustu málsgreinum kafla 10.7 er lögð sérstök áhersla á að starfi Samtakanna ´78 að fræðslu í fjölmiðlun og ráðgjöf verði tryggður stuðningur ríkis og sveitarfélaga sem og stuðningur við bókasafn samtakanna. Einnig er lagt til að menntamálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti fái félagsvísindadeild Háskóla Íslands til að gera rannsókn á lífi og líðan samkynhneigðra á Íslandi í þeim tilgangi að bæta lífsskilyrði þeirra. Þessar tillögur eru að mínu mati athyglisverðar og eðlilegt að kanna með hvaða hætti hægt sé að koma til móts við þær.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég víkja aftur að endurskoðun námskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla sem nú fer fram í tengslum við m.a. breytta námsskipan til stúdentsprófs. Við þá vinnu verður nýtt sú reynsla sem fengist hefur af framkvæmd gildandi námskrár en ég vil endurtaka að við þá endurskoðun, sem framkvæmd er af hópi sérfræðinga, er nýja skýrslan um réttarstöðu samkynhneigðra og fræðslu um málefni þeirra að sjálfsögðu höfð til hliðsjónar. Verður fjallað um málið m.a. með tilliti til stefnunnar sem mörkuð var með aðalnámskránni 1999 og hugsanlegra breytinga á henni.